139. löggjafarþing — 10. fundur,  14. okt. 2010.

skuldir heimilanna.

[13:50]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Hæstv. forseti. Okkur Íslendingum er eiginlegt að tala í kross. Það er rétt hjá hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni að Framsókn og fleiri lögðu til almenna niðurfellingu fyrir tveimur árum og aðrir lögðu til hluti sem horfðu til annarra átta. Síðan hafa menn mestmegnis notað hornin og rætt þetta út frá eigin rökveröld.

Fyrir hrunið var lögð lagaleg mælistika á flest allt í landinu. Við sjáum alveg fyrir okkur frétt þar sem þingmanni skrikar fótur á siðferðissvellinu og blaðamenn rjúka upp í háskóla og tala við lagaprófessorinn og spyrja hann: Á hann að segja af sér? Það var ekki talað við heimspekiprófessorinn. Auðvitað hefði átt að tala við báða.

Nú er þjóðin klofin í herðar niður vegna deilna um aðgerðir fyrir skuldara í húsnæðislánum. Hverjum ber að hjálpa og þá hvernig? Hugtakið sem rifist er um núna er hvorki meira né minna en réttlæti. Stjórnmálamenn, hagfræðingar og bloggarar ætla nú að skilgreina í eitt skipti fyrir öll það hugtak sem færustu heimspekingar og rithöfundar veraldar hafa eytt nokkrum þúsundum ára í án þess að komast nokkuð til botns í því. Mikill er máttur íslenskrar orðræðu.

Nú held ég hins vegar að upp sé að renna ákveðin ögurstund í þessu máli. Fólki hefur verið egnt upp hverju á móti öðru, heilu brúðkaupsveislurnar og ættarmótin loga í illdeilum út af mismunandi lánasamningum til húsnæðiskaupa. Meðan á öllu þessu stendur missa fleiri og fleiri fjölskyldur tökin á fjármálunum, fjölskyldur flosna upp og börn bíða skaða sem sennilega verður aldrei bættur. Ég held að það sé orðið löngu ljóst að í þessu máli verðum við aldrei sammála um neitt sem heitir endanlegt réttlæti. Nú verða einfaldlega allir að gefa eitthvað eftir og slaka aðeins á. (Forseti hringir.)

Undanfarna daga hefur breiður hópur fólks hist í Þjóðmenningarhúsinu og reynt að finna sameiginlegan flöt á aðgerðum. Við megum engan tíma missa. Án þess að menn komist að (Forseti hringir.) víðtækri sátt um þetta mál verður aldrei friður í þessu landi og svei þeim sem hlaupast undan merkjum núna.