139. löggjafarþing — 10. fundur,  14. okt. 2010.

skuldir heimilanna.

[13:53]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Ríkisstjórnin hefur nú haft eitt og hálft ár til að grípa til raunhæfra aðgerða til bjargar skuldsettum heimilum. Það hefur hún ekki gert heldur brugðist þeim. Núverandi ríkisstjórn býður ekki upp á neinar lausnir og það sem verra er; hún hefur ekki sýnt neinn vilja til að hlusta á tillögur stjórnarandstöðunnar til lausnar á vandanum. Við sjálfstæðismenn höfum t.d. ítrekað lagt fram tillögur sem miða að því að lækka greiðslubyrði heimilanna vegna fasteignaveðlána um 50%. Á þær hefur ríkisstjórnin ekki hlustað og enn síður hefur hún viljað sjá tillögur Framsóknarflokksins.

Það eru auðvitað vonbrigði fyrir okkur í stjórnarandstöðunni en það eru fyrst og fremst vonbrigði fyrir fólkið í landinu, ekki síst nú þegar komið hefur í ljós að ríkisstjórnin er á algerum byrjunarreit þegar kemur að því að leysa skuldavanda heimilanna. Vilji menn leysa þann vanda þarf að grípa til róttækra aðgerða. Það nægir ekki að einblína á skuldavandann einan. Það verður að leysa þetta mál heildstætt. Til að leysa vandann og auka lífskjörin í landinu þarf að koma atvinnulífinu af stað, ekki drepa það niður. Það þarf að skapa fólki vinnu og gera því kleift að auka tekjur sínar. Það þarf að lækka skatta þessa fólks til að það hafi meira á milli handanna, ekki hækka þá og skerða í leiðinni barnabætur, fæðingarorlof, persónuafslátt og alla skapaða hluti eins og ríkisstjórnin hefur gert. Þetta viljum við sjálfstæðismenn gera og höfum margoft sagt það. En ríkisstjórnin vill ekki hlusta á okkur og hún vill alls ekki heyra á það minnst að ráðist verði í heildstæðar aðgerðir.

Virðulegi forseti. Þessi ríkisstjórn er að mínu mati komin á algera endastöð, hún er komin að fótum fram og í rauninni orðin eitt helsta vandamál heimilanna í landinu. Það er kominn tími til að hún fái að hvíla (Forseti hringir.) lúin bein sem veitir ekki af hvíldinni blessuðum, en meðan þau fá ekki hvíld tel ég að það sé borin von að sá vandi sem við ræðum verði (Forseti hringir.) leystur.