139. löggjafarþing — 10. fundur,  14. okt. 2010.

skuldir heimilanna.

[13:55]
Horfa

Þráinn Bertelsson (Vg):

Frú forseti. Við ræðum um skuldavanda heimilanna sem skapaðist á einu augabragði þegar svonefnt hrun varð hér fyrir tveimur árum. Af hverju erum við að tala um þennan vanda? Það er vegna þess að hann hefur ekki verið leystur. Hvað hefur ríkisstjórnin gert? Hún hefur lagt fram frumvörp um ýmsar sértækar aðgerðir. Hún kvartar og kveinar undan því að menn tali þessar sértæku aðgerðir niður. Ég hef ekki orðið var við það. Ég hef ekki gert það. Ég hef greitt atkvæði með öllum þessum aðgerðum. Þær eru því miður ófullnægjandi.

Ríkisstjórnin hefur ekki fyrr en á síðustu dögum látið í það skína að hún viðurkenni þennan vanda sem almennan heildstæðan vanda og hún hefur skorast undan að taka á honum.

Það er grundvallarástæða allra samfélaga að samtrygging gildi meðal fólks. Þessa samtryggingu viðurkennir ríkisstjórnin með því þó að leggja til einhverjar sértækar aðgerðir. Þessar sértæku aðgerðir duga engan veginn. Mótrök ríkisstjórnarinnar gegn almennum aðgerðum eru eins og það yrði eldgos í einhverri byggð og það lagðar yrðu til sértækar aðgerðir til að bjarga þeim sem slösuðust, þeir sem húsin hryndu yfir en þeir sem hins vegar væru í færum til að endurbyggja bæi sína sjálfir á eigin kostnað ættu að gera það. Hvers lags samtrygging er það, með leyfi?

Núna þurfum við að gera okkur grein fyrir því að við erum ein þjóð í einu landi hvar í flokki sem við stöndum og þetta mál (Forseti hringir.) þurfum við að leysa eigi síðar en nú þegar.