139. löggjafarþing — 10. fundur,  14. okt. 2010.

skuldir heimilanna.

[13:58]
Horfa

Baldvin Jónsson (Hr):

Frú forseti. Ég tek undir að hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni sé þakkað fyrir að vekja máls á þessu. Ríkisstjórnin biður fólk um að sýna biðlund, ríkisstjórnin biður okkur um að sitja áfram við borðið og halda áfram samræðustjórnmálum sem a.m.k. hluti hennar er svo hrifinn af. Ríkisstjórnin er búin að hafa hartnær 18 mánuði til að koma fram með einhverjar hugmyndir að lausnum. Það er núna á allra síðustu sekúndunum sem ríkisstjórnin er skyndilega tilbúin að skoða utanaðkomandi tillögur og nýjar hugmyndir.

Undanfarna daga hefur farið fram fjöldi funda á vegum ríkisstjórnarinnar með ýmsum hagsmunaaðilum og stjórnarandstöðu um vanda heimilanna. Það var von mín og mun fleiri á þeim fundum að tilgangur þeirra væri að setja saman og kynna framkvæmdaáætlun um úrlausn neyðarvanda heimilanna og eðlilega leiðréttingu á þeim forsendubresti sem heimili landsmanna urðu fyrir á lánum sínum við hrun fjármálakerfisins á Íslandi. Þessir fundir hafa því miður ekki staðið undir væntingum mínum heldur þvert á móti. Það hafa ekki verið lagðar fram neinar traustar tillögur af hálfu ríkisstjórnarinnar. Þar hefur hins vegar komið skýrt fram að hæstv. fjármálaráðherra, efnahags- og viðskiptaráðherra og dómsmála- og mannréttindaráðherra stefna allir í hver í sína áttina. Einn vill skoða sérstakar lausnir, annar er ekki sammála hugmyndum um leiðréttingu lána og sá þriðji virðist sem betur fer að miklu leyti fylgjandi hugmyndum um leiðréttingu og að verja fólk gegn ævilöngu skuldafangelsi. Þjóðin situr með öndina í hálsinum og veit ekki hvort hún verður með eitthvað á matardisknum sínum á morgun eða húsaskjól í næstu viku. Það er ekki tími fleiri funda. Það er tími aðgerða.

Hv. þingmaður segir: Svei þeim sem hlaupast undan merkjum. Ég segi: Hvaða merkjum? Kvalarans eða böðulsins? Hlutfallsleg leiðrétting réttir hlutfallslega forsendubrestinn. Þeir sem eru í mestum vandræðum munu fá mesta aðstoð.