139. löggjafarþing — 10. fundur,  14. okt. 2010.

skuldir heimilanna.

[14:00]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Frú forseti. Svei ríkisstjórninni fyrir skort á vilja. Svei ríkisstjórninni fyrir að duga ekki. Svei ríkisstjórninni fyrir að hlusta ekki á okkur eða heimilin og svei ríkisstjórninni fyrir að ætla öðrum að leysa sig úr snörunni. Svei ríkisstjórninni fyrir að vera algjörlega vanhæf. Þetta er það svei sem hv. þm. Logi Már Einarsson ætti að hafa í huga.

Við höfum ekki langan tíma, það er það eina sem ég er sammála hv. þingmanni um, við höfum ekki langan tíma. Og þetta snýst ekki um að einhverjir séu að hlaupast undan merkjum. Þetta snýst um það að við höfum ríkisstjórn og ef hún dugar til beitir hún sér fyrir því að fram komi lausnir. Það er algjörlega óásættanlegt að ábyrgðinni á getuleysinu sé varpað á aðra. Við munum ekki sitja undir því, það er alveg ljóst.

Við sem höfum talað hér og mælt fyrir því að fram komi góð aðstoð við heimilin, létt á skuldum þeirra til að þau geti verið þátttakendur í hagkerfinu — við munum leggja okkar af mörkum. Við munum hins vegar ekki sitja sem farþegar á sökkvandi skipi ríkisstjórnarinnar sem lætur þingmenn sína standa hér upp og kalla „svei þér“ á alla hina. Það er leikur sem við tökum ekki þátt í.

Ef hér koma fram tillögur sem eru til þess fallnar að leysa vanda heimilanna, leiðrétta þann óskapnað sem hér varð, leiðrétta rangfærslurnar sem heimilin eru beitt, þá tökum við þátt í því. En við ætlum ekki, eins og ég sagði áðan, að taka þátt í því að fara enn einn hring í því að blekkja heimilin með fyrirætlunum sem mun koma í ljós að ekki munu standast. Það er alveg klárt mál.

Það er mjög mikilvægt að hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra og heilbrigðisráðherra beiti sér núna fyrir því að á okkur verði hlustað, að á heimilin verði hlustað, að það verði tekið mark á því að verulegur vandi er á nánast hverju einasta heimili. Ef almennar aðgerðir leiða til þess að einhverjir kumpánar í lífeyrissjóðunum eða bönkunum fái aðstoð sem þeir þurfa ekki á að halda (Forseti hringir.) geta þeir bara borgað þær milljónir til mæðrastyrksnefndar eða eitthvað slíkt.