139. löggjafarþing — 11. fundur,  14. okt. 2010.

greiðsluaðlögun einstaklinga.

55. mál
[14:21]
Horfa

Frsm. fél.- og trn. (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég er ekki með beina spurningu til hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar en ég vil taka undir áhyggjur hans af því að þarna gæti myndast nýr flöskuháls. Við ræddum þetta þó nokkuð en ég held að það skipti meginmáli að umboðsmaður skuldara hafi sem best aðgengi að rafrænum upplýsingum, að þær opinberu stofnanir t.d. sem eiga að veita aðgengi inn í gagnagrunna sína flýti þeirri tengingu. Það hefur verið vandamál, t.d. í samskiptum við Þjóðskrá og skattyfirvöld. Ég veit að á vettvangi ríkisstjórnarinnar er verið að þrýsta á að þetta verði lagfært og ég hef góða trú á að það sé rétt. Þetta er eitt af því sem við í félags- og tryggingamálanefnd þurfum að passa upp á að verði fylgt eftir því þetta mun sannarlega létta undir með skuldurum. Þó að skuldari þurfi kannski að koma með upplýsingar um launaseðla og slíkt þá sé það sem minnst af upplýsingum sem hann þarf að afla sjálfur, heldur geti hann veitt umboðsmanni skuldara heimild til að afla þessara upplýsinga þannig að ekki sé verið að senda fólk bæinn á enda til að leita að einhverjum upplýsingum sem á að vera hægt að nálgast miðlægt.

Ég vil bara taka undir með þingmanninum. Ég held við höfum öll áhyggjur af þessu og þurfum að vera vakandi fyrir því að ýta á þá sem eiga að geta komið í veg fyrir að slíkir flöskuhálsar myndist.