139. löggjafarþing — 11. fundur,  14. okt. 2010.

greiðsluaðlögun einstaklinga.

55. mál
[14:25]
Horfa

Frsm. fél.- og trn. (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það hefur margoft verið sagt í þessum ræðustól að við erum í fordæmalausum aðstæðum. Við höfum þurft að smíða nýja löggjöf út af þeim aðstæðum sem hafa skapast til að taka á vanda sem er mjög umfangsmikill.

Ég hef áður nefnt að hæstv. forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, flutti hér þing eftir þing frumvarp til laga um greiðsluaðlögun sem því miður varð ekki að lögum á sínum tíma heldur höfum við verið að vinna í því núna í þinginu eftir hrunið. Við vissum það í sjálfu sér frá upphafi þegar við vorum í þessari lagasmíð að smám saman þyrfti að sníða agnúana af.

Ég tek undir það með hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni að þó við séum meðvituð um að við séum í aðstæðum sem við þurfum að reyna okkur áfram í þá eigum við alltaf að hafa það sem markmið þegar við erum að setja lög að vandað sé til þeirrar lagasetningar eins og auðið er. Ég ætla ekkert að slá af kröfum um vönduð vinnubrögð hér í þinginu.

Ég fagna þessari tillögu hv. þingmanns og ég hugsa að nefndin muni fljótlega, kannski eftir tvær til þrjár vikur, kalla til umboðsmann og jafnvel fleiri gesti til að heyra að þetta uppfylli væntingar okkar, það er mjög góð ábending. Það er að sjálfsögðu nefndarinnar að fylgjast með því að verið sé að vinna samkvæmt lögum sem hún setur og að lögin uppfylli sín markmið.