139. löggjafarþing — 12. fundur,  14. okt. 2010.

skilaskylda á ferskum matvörum.

12. mál
[14:52]
Horfa

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Í sjálfu sér þarf ekki að hafa mörg orð um þá þingsályktunartillögu sem hér er lögð fram í þriðja sinn. Það er von mín að hún verði afgreidd á þessu þingi og því legg ég til að auk þess að vera vísað til viðskiptanefndar, þar sem hún á heima að forminu til, verði hún einnig send til umsagnar í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd.

Ég tel að við þurfum eins og við getum að standa vörð um íslenskan landbúnað. Verndartollar hafa verið felldir niður í ýmsum greinum og íslenskur landbúnaður á í óhagstæðri samkeppni við erlendan innflutning, hvað þá þegar svona atriði ásamt mörgum öðrum bætast ofan á.

Þá vil ég vísa til viðskiptahátta sem hafa verið teknir upp hér á landi með tilkomu stórra matvælakeðja sem hafa bæði gert framleiðendum auðveldara að koma vöru sinni á markað, en einnig hindrað minni framleiðendur í að koma vörum sínum á markað. Þetta er því ein lýsing af mörgum á því umhverfi sem íslenskur landbúnaður býr við í matvöruverslunum. Ég tel mikilvægt að við afgreiðum þetta á þessu þingi.