139. löggjafarþing — 12. fundur,  14. okt. 2010.

sala sjávarafla o.fl.

50. mál
[15:18]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Virðulegur forseti. Við ræðum frumvarp um að fiskur veiddur á Íslandsmiðum fari á innlenda fiskmarkaði. Þetta er mikilvægt mál og mikilvægt innlegg í umræðuna sem hefur verið í þingsölum í dag um atvinnuuppbyggingu þar sem hefðin undanfarin ár hefur beinst í þá veru að ríkisvaldið kosti milljörðum eða tugmilljörðum til að virkja vatnsföll og jarðhita til að búa til störf, tiltölulega fá störf miðað við fjárfestar krónur.

Á hverju ári eru flutt út í kringum 30 til 40 þús. tonn af óunnum fiski í gámum eða flugvélum og unninn eða settur á markaði erlendis. Þeir sem gerst þekkja til í greininni telja að með því að landa öllum afla á innlenda fiskmarkaði muni sjálfkrafa verða til a.m.k. 500 ný störf beintengd þessum breytingum og afleidd störf í kjölfarið muni verða um 200. Þarna erum við að tala um 700–800 störf sem þessi breyting muni leiða til og ekki veitir af. Þessi störf verða til með litlum tilkostnaði og verða til á skömmum tíma, þ.e. þann tíma sem tekur að ráða í þau.

Þetta er mikilvæg breyting. Hún er mikilvæg að því marki að það er verið að færa mikilvægustu auðlind þjóðarinnar inn í markaðsumhverfi. Hvað svo sem segja má um markaðsbúskap í öllum geirum mannlegs samfélags er markaðsumhverfið einmitt mikilvægt í þessum geira. Það þarf að koma til skila með gagnsæjum hætti því verði sem er í gangi á hverjum tíma. Verðið fyrir aflann þarf að skila sér til sjómanna. Innlendar fiskvinnslur þurfa að eiga aðgang að auðlindinni, að aflanum og hráefni sínu í eðlilegu umhverfi þar sem þær geta boðið það sem þær telja sér fært að bjóða og selt vöruna í framhaldi af því.

Við búum við þá stöðu í dag vegna falls krónunnar að íslenskt vinnuafl er sennilega ódýrasta vinnuafl í allri Evrópu þannig að samkeppnisstaða fiskvinnslu á Íslandi er mjög góð. Með því að hafa þetta markaðsumhverfi fyrir veiddan fisk mun takast með eðlilegum hætti að halda sveiflunum sem þarf í atvinnugreininni þegar fram líða stundir. Sveiflurnar þurfa ekki að byggjast á einhverjum fákeppnismarkaðssjónarmiðum heldur geta fiskvinnslurnar fyrst og fremst tekið mið af því að þær starfa á eðlilegum markaði.

Ég fagna því að hv. þingmaður og félagi minn, Baldvin Jónsson, leggi fram frumvarpið í sínu tveggja vikna starfi á þingi. Þetta er mikilvægt mál og gaman að sjá félaga minn frá því hér utan af Austurvelli fyrir um tveimur árum vera loksins kominn fram með frumvarp til laga á Íslandi. (BaldJ: Ég stoppa stutt.) Hann stoppar stutt, já. Þetta sýnir manni að það getur hver sem er verið þátttakandi í stjórnmálum á Íslandi. Bakgrunnur manna getur verið mismunandi en allir eiga fullt erindi hingað inn og það finnst mér gleðiefni.

Hv. þm. Þuríður Backman talaði einmitt um það sem skiptir miklu máli í þessu, að þetta mun leiða til þess að arðurinn af auðlindinni aukist og verði í meira mæli eftir innan lands en verið hefur. Það getur hver sem er komið til Íslands eða sett upp skrifstofur og boðið í fisk á íslenskum mörkuðum. Ef breskir eða franskir fisksalar vilja bjóða í íslenskan fisk er þeim frjálst að gera það hér á Íslandi og flytja síðan fiskinn út sjálfir. Gegnsæið er algert. Ef þeir geta selt óunninn íslenskan fisk á hærra verði en íslenskar fiskvinnslur geta boðið í hann, þá er það eðlileg og hagkvæmasta niðurstaðan hverju sinni.

Það er fagnaðarefni að þetta mál skuli vera komið fram og fari síðan væntanlega til sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar. Hreyfingin er ekki með fulltrúa í þeirri nefnd en við munum óska eftir því við þingið að við fáum að vera með áheyrnarfulltrúa meðan málið fer í gegn. Skipta okkur af því eins og okkur er mögulegt og reyna að vinna því framgang allt til enda.