139. löggjafarþing — 12. fundur,  14. okt. 2010.

sala sjávarafla o.fl.

50. mál
[15:24]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Frú forseti. Ég þakka flutningsmönnum frumvarpsins fyrir að vekja athygli á þessu máli. Ég tek undir með hv. þm. Þuríði Backman og flutningsmönnum að markmiðið með frumvarpinu er sannarlega gott, þ.e. að tryggja þjóðinni, okkar sem eigum fiskinn í sjónum, að hún fái þann arð af auðlindinni sem eðlilegt er.

Ég tek undir það sem hefur komið fram í umræðunni að það er í sjálfu sér ekki gott fyrir háþróaða tæknivædda þjóð eins og Íslendinga að upplifa sjálfa sig sem hráefnisútflytjendur, sem er í hefðbundnum skilningi — ef ég hef skilið mína menntaskólaviðskipta- og hagfræði rétt — hlutverk þjóða sem eru komnar skemur á veg í þróun, sérstaklega hvað varðar samfélagsgerð og annað. Það er því út af fyrir sig ágætt.

Ég er hins vegar ekki sannfærður um að þetta sé eina eða besta leiðin. Ég fagna því ef málið fer til sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar og verði rætt þar. Ég velti fyrir mér vandkvæðunum sem kynnu að koma upp í samningsgerð við erlenda aðila við kaup á fiski, lítið eða mikið unnum. Þetta kynni að skapa vandkvæði hjá útgerðarmönnum eða handhöfum aflaheimilda í samningagerðinni vegna þess að sá sem ætlaði að útvega fiskinn gæti kannski ekki tryggt afhendingu hans. Þar með gæti skapast óþarfamilliliður. Ég velti fyrir mér hvort flutningsmenn hafi hugleitt hvort það væri hætta á að upp kæmu málamyndagjörningar hjá aðilum sem keyptu fisk á markaði til þess að tryggja að þeir gætu staðið við tiltekna samninga. Ég hef áhyggjur af því hvernig þetta atriði kæmi út.

Ég velti fyrir mér í því sambandi hvort það væri skynsamlegt að skilyrða einhvern tiltekinn hluta aflaheimilda sem er úthlutað á hverju ári við þetta. Þá erum við aftur komin að umræðunni um byggðakvóta sem var raunar eitt af málum sem þingflokkur Vinstri grænna og fleiri flokkar, gott ef það var ekki þingflokkur Kvennalistans, töluðu fyrir að tryggt væri að tiltekinn hluti sjávarafla kæmi að landi í byggðum landsins og yrði unninn þar.

Það er hárrétt hjá flutningsmönnum að þjóðhagslegur arður af veiddum fiski er miklu meiri á kíló ef aflinn er veiddur, honum landað og unninn hérna. Ég tek heils hugar undir það að með því mundum við skapa fjölmörg störf. Að mínu mati er úrvinnslan ekki alveg fullkláruð eins og hún kemur fram í frumvarpinu. Það er allt í lagi, vegna þess að ég held að þetta sé gott mál og að sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd eigi að taka við því af heilum hug. Vinna með það og koma því þannig frá að þingið fái að taka afstöðu til þess. Ég fagna því flutningi þess.