139. löggjafarþing — 14. fundur,  18. okt. 2010.

stækkun Reykjanesvirkjunar.

[15:16]
Horfa

Birgir Þórarinsson (F):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin en það sem ég á við er að þarna hefðu stjórnvöld einfaldlega getað farið leið sem var hófsöm og hæstv. fjármálaráðherra hefur kallað eftir því að menn standi saman. Á það að vera þannig að menn fari alltaf ýtrustu leið og það þurfi að kæra allt saman til þess að málin nái fram að ganga? Menn kalla eftir samstöðu og þarna var ákveðin leið til þess að sýna það af hálfu stjórnvalda að hægt hefði verið að flýta fyrir framkvæmdunum sem eru gríðarlega mikilvægar. Ég endurtek að ástandið á Suðurnesjum er afar alvarlegt, við þekkjum það, og þessi umræða fór fram í þinginu í síðustu viku þannig að þetta er spurning um vilja.