139. löggjafarþing — 14. fundur,  18. okt. 2010.

auknir skattar á ferðaþjónustu.

[15:18]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Efling ferðaþjónustunnar er einn af þeim vonarneistum sem við horfum til á þessum erfiðu tímum. Það var því fagnaðarefni þegar Icelandair tilkynnti að þeir hygðust fjölga vélum sínum næsta sumar úr 12 í 14, þær höfðu þá aldrei verið fleiri, og þeir mundu auka sætaframboð til landsins um 17%. Þeir tilkynntu að það mundi skapa um 200 ný störf, fyrst og fremst flugliða og flugvirkja, auk allra afleiddra starf sem það hefði í för með sér á því svæði þar sem atvinnuleysi er mest.

Á sama tíma tilkynnti ríkið um nýja skatta, m.a. á áfengi og tóbak í fríhöfninni og niðurskurð til rekstrar flugvallarins. Það á að skila ríkissjóði um 1,3 milljörðum. Isavia ohf., rekstrarfélag flugvalla, mun leita leiða vegna þessa til að ná inn einum milljarði, m.a. með hækkun flugvallargjalda. Það er beint samhengi á milli flugmiðaverðs til og frá landinu og ferðamannastraums. Árið 2009, þegar Icelandair lækkaði flugfargjöld sín um 10%, varð heilmikil fjölgun ferðamanna því samhliða. Það má reikna með því að komi þessar aðgerðir til framkvæmda séu áform Icelandair um miklu aukningu næsta sumar í algjöru uppnámi, 10% fækkun ferðamanna mundu þýða 15 milljarða kr. minni gjaldeyristekjur í landið.

Tap ríkissjóðs vegna hugmynda þeirra um aukna skattheimtu í ferðaþjónustunni mun því aldrei skila sér, skattheimtan mun aldrei skila sér í ríkissjóð, tap ríkissjóðs verður meira. Fækkun starfa á Suðurnesjum verður enn meiri. Það mun bitna á Icelandair, á þeirri miklu uppbyggingu sem horft var til þar, auk þess sem starfsmenn á flugvallarsvæðinu munu þurfa að bíta úr því og þeir búa flestir á Suðurnesjum.

Öll þau hundruð milljóna sem voru sett í kynningu á Íslandi (Forseti hringir.) sem ferðamannastaðar á þessu ári munu brenna upp og ég vil spyrja hæstv. iðnaðarráðherra um viðbrögð hennar við því.