139. löggjafarþing — 14. fundur,  18. okt. 2010.

auknir skattar á ferðaþjónustu.

[15:22]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Hæstv. iðnaðarráðherra segir að hún geti ekki tekið þetta til sín, þetta sé á borði samgönguráðherra. Það er alveg eins og hæstv. ráðherra svaraði áðan, henni gat ekki komið það við hvernig málum gagnvart orkuöflun á Suðurnesjum er hagað, hún yrði vanhæf ef hún mundi beita sér með jákvæðum hætti til að koma þeim málum áfram. Þetta eru alveg ótrúleg svör en sýna auðvitað stöðuna innan þessarar ríkisstjórnar.

Hér talaði ráðherra ferðamála í landinu. Það hlýtur að vera verulegt áhyggjuefni að á sama tíma boðað er að auka eigi kynningu á landinu, að setja eigi meiri fjármuni í að efla ferðaþjónustuna — við horfum til ferðaþjónustunnar sem eins af helstu vonarneistunum í íslensku atvinnulífi — ætli stjórnvöld að skattleggja greinina þannig að flugfélögin treysta sér ekki til að auka sætaframboð. Það mun draga úr öllu framboði sem gerir bara eitt: Við þurfum ekki að setja fjármagn (Forseti hringir.) í landkynningu, við þurfum ekki að byggja upp ferðamannastaði af því að ferðamönnum fer að fækka vegna aðgerða eða aðgerðaleysis ríkisstjórnarinnar.