139. löggjafarþing — 14. fundur,  18. okt. 2010.

skipulagsmál í Suðurkjördæmi.

[15:28]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir þessi svör. Það er mjög mikilvægt að skipulagsmál séu unnin hratt og vel. Það eru því miður ekki orð sem ég hef getað notað hingað til um það hvernig umhverfisráðuneytið og undirstofnanir í ráðuneytinu hafa starfað að skipulagsmálum.

Það hefur komið fram frá áhugasömum fjárfestum og Fjárfestingarstofu að fjárfestar sem haft hafa áhuga á að koma hingað til lands og leggja peninga í uppbyggingu hér hafa hikað vegna þess hvað miklar tafir hafa verið og óskipulag í skipulagsmálum og vinnu á vegum stjórnsýslunnar. Ég hefði því líka áhuga á að fá að heyra frá hæstv. umhverfisráðherra hvort ráðherrann hafi skoðað eða gert einhvers konar úttekt, því að við erum nú svo áhugasöm um ýmsar rannsóknir, á því hvort tími á afgreiðslu mála hjá ráðuneytinu hafi lengst í hennar tíð í samanburði við aðra ráðherra, og ef svo er, hvernig væri þá hægt að koma vinnuferlinu í þann gír að við getum farið að sjá (Forseti hringir.) einhverja atvinnusköpun hér á landi.