139. löggjafarþing — 14. fundur,  18. okt. 2010.

skipulagsmál í Suðurkjördæmi.

[15:29]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ja, mikil eru nú völd þeirrar sem hér stendur ef hún ber ábyrgð á því hvort einhver atvinnusköpun fer af stað í landinu, en það er nú í anda málflutnings sem aðrir þingmenn hafa viðhaft hér í salnum en ég bjóst ekki við honum frá þeim þingmanni sem bar upp fyrirspurnina. Hún hefur að jafnaði verið málefnalegri en svo.

Ég hef lagt mjög mikið upp úr því að skoða málshraða í umhverfisráðuneytinu og ég hef lagt mikla vinnu í að úr verði bætt þar sem þess er þörf en jafnframt að ferillinn verði gagnsær, hann verði réttur og að stjórnsýslan í umhverfisráðuneytinu verði til fyrirmyndar. Það er markmið mitt sem ég mun fylgja kirfilega eftir.