139. löggjafarþing — 14. fundur,  18. okt. 2010.

samskipti skóla og trúfélaga.

[15:31]
Horfa

Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Í mannréttindaráði Reykjavíkurborgar eru til umfjöllunar samskipti leik- og grunnskóla borgarinnar við kirkju og trúfélög. Þetta kemur á óvart, þær hugmyndir sem lagðar eru á borðið um að slíta eigi í sundur alla tengingu við trúna í skólakerfinu, ankerisfestina frá árinu 1000 og sérstaklega vegna þess að árin 2007 og 2008 voru miklar samræður og umræður milli kirknanna og skólayfirvalda og ákveðin sátt um að allar gerðir yrðu á forsendum skólasamfélagsins með ákveðnu trausti í þessum efnum.

Þá var deilt um það árið 2008, þegar ný grunnskólalög voru samþykkt, hvort þar ætti að standa „kristilegt siðgæði“ eða eitthvað annað. Niðurstaðan varð sú að því orðalagi var breytt á þá leið að það yrðu hugtökin umhyggja, sáttfýsi og virðing fyrir manngildi sem væru kjarninn í túlkun á kristilegu siðgæði og það er orðalagið sem kom í staðinn. Þetta er í lögunum og síðan er reiknað með því að þetta gangi fram með eðlilegum hætti á ábyrgð skólastjórnenda og hefur ekki verið neitt vandamál í þeim efnum í heildina.

Talað er um að skólastarf skerðist í tvo daga á ári vegna ferða fermingarbarna en það eru skólastjórar sem hafa leyfi til að gefa, samkvæmt beiðni foreldra, börnum leyfi til að fara í eitt og annað, hvort sem það er fermingarfræðsla, íþróttir eða annað. Mig langar að spyrja hæstv. menntamálaráðherra hvað hann vilji segja um þetta verklag, að (Forseti hringir.) þarna eigi að koma boð að ofan, frá mannréttindaráði borgarinnar, sem skekur það sem hæstv. ráðuneyti er búið að samþykkja og leggja til.