139. löggjafarþing — 14. fundur,  18. okt. 2010.

samskipti skóla og trúfélaga.

[15:33]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja máls á þessu málefni sem lengi hefur verið í umræðu í skólamálum á Íslandi.

Það er frá því að segja að út frá einmitt mannréttindasáttmálanum hefur ráðuneytið látið vinna álit sem verður birt á næstu vikum á heimasíðu ráðuneytisins þar sem tekin er afstaða til samskipta skóla og trúfélaga út frá mannréttindasáttmálanum. Ég á von á því að það verði birt á næstu vikum. Það er nýlega komið í hús og byggist í raun og veru á þeirri meginreglu að skólastjórnendur geta heimilað heimsóknir eða annað starf sem tengist trúfélögum rétt eins og annað starf og geta veitt leyfi svo fremi sem viðunandi starf sé þá í skólanum á meðan fyrir þá sem ekki fara slíkar ferðir eða sækja slíkt starf og það sé þá í valdi skólastjóra leik- og grunnskóla að veita slíkt leyfi. Það hefur verið meginuppistaðan í þeim starfsreglum sem við höfum iðkað í ráðuneytinu. Það þarf alltaf að vega og meta hvenær trúfélög þykja vera komin of mikið inn í skólastarf og það er þá eitthvað líka sem við þurfum að hafa augun opin fyrir hvernig er framkvæmt. En þetta hefur verið meginreglan eins og mér heyrist að tilfinning hv. þingmanns sé.