139. löggjafarþing — 14. fundur,  18. okt. 2010.

háskólamál.

[15:43]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur fyrir að hefja þessa umræðu sem ég held að sé mjög þarft að við eigum hér í þessum sal. Eins og hv. þingmaður fór réttilega yfir hefur sú stefna verið sett að opinberir háskólar vinna saman í samstarfsneti opinberra háskóla. Sú stefna byggir m.a. á skýrslu sem kallast, svo ég fái að nota hið enska heiti, Education Research and Innovation Policy, a New Direction for Iceland, sem var sett saman af starfshópi sem forveri minn í starfi og hv. málshefjandi skipaði, sem voru sem sagt fulltrúar frá OECD og finnskir sérfræðingar í háskólamálum þar sem er hvatt til þessarar auknu samþjöppunar, annars vegar opinberra háskóla og hins vegar einkarekinna háskóla.

Við höfum unnið að þessu markmiði, að hvetja til samstarfs og verkaskiptingar, og tilgangurinn með því er að standa vörð um gæði eins mikið og unnt er á niðurskurðartímum, þ.e. að horfa til þess að við reynum að standa vörð um fjölbreytni í háskólanámi — þá vísa ég til fræðasviðanna — en horfa frekar til þeirrar samlegðar sem getur náðst með því að samkenna sömu greinar. Það skiptir máli að standa vörð um fjölbreytni þannig að við kennum hér og rannsökum á sem flestum fræðasviðum, og það eru grunnforsendurnar fyrir þessari stefnumótun. Búið er að setja hana í gang með verkefnisstjórn sem er skipuð fulltrúum þessara skóla, þeir sitja saman í henni og vinna samkvæmt tilteknum markmiðum, meðal annars að allir þessir skólar starfi samkvæmt sömu lögum, sem þeir gera ekki um þessar mundir þar sem landbúnaðarháskólarnir starfa undir sérstökum lögum. Sameiginleg stjórnsýsla verði að hluta, samræmt gæðamat og gæðakerfi, eitt upplýsingakerfi, horft til stofnþjónustunnar, horft til sameiginlegrar miðstöðvar fyrir framhaldsnám og það verði eitt vinnumatskerfi og samstarf við þekkingarsetur og símenntunarmiðstöðvar á landsbyggðinni verði skilgreint.

Við erum búin að setja fram tímaáætlun um þetta. Samhliða þessu hafa síðan einkareknu háskólarnir, Háskólinn í Reykjavík og Háskólinn á Bifröst, átt í óformlegum viðræðum upp á síðkastið um hvaða samlegð þeir telji sig geta náð á sínum fræðasviðum, og við höfum að sjálfsögðu reynt að styðja við það. Af því að hv. þingmaður nefnir þessar 300 millj. kr. er það rétt að við höfum sótt um það og það á eftir að koma til umræðu í fjárlagaumræðunni að fá 300 millj. kr. á árunum 2011 og 2012 til að geta stutt við samstarfsverkefni háskólanna.

Það skiptir miklu máli, af því að ég lít svo á að þetta sé verkefni sem fyrst og fremst muni skila langtímahagræðingu og langtímaárangri, en hins vegar getur það tekið á og kostað sitt að fara í slík verkefni á niðurskurðartímum. Ég lít svo á að það sé erfitt fyrir skólana að taka fé út úr rekstri sínum á sama tíma og þeir standa frammi fyrir erfiðum niðurskurði til að standa í þessum verkefnum líka og ég lít þannig á þetta sem ákveðinn hvata til þess að stuðla að þessu samstarfi.

Hvað varðar endurskoðunina á reiknilíkaninu, sem hv. þingmaður nefnir, hefur það verið í endurskoðun í allmörg ár og snýr að því að um langt skeið hafa lægstu reikniflokkarnir verið taldir allvanmetnir í þessu reiknilíkani. Aðrir reikniflokkar, eins og t.d. reikniflokkur fyrir hjúkrunarfræði, hafa líka verið taldir vanmetnir. Tilgangur breytinganna, sem hafa verið unnar í samstarfi við forstöðumenn háskólanna, er að bæta úr þessu. Hins vegar er rétt að taka fram að reiknilíkanið snýr fyrst og fremst að því hvernig fjármunum er úthlutað til skólanna. Þeir hafa síðan fullt sjálfdæmi um það og hafa nýtt sér það að úthluta fjármunum innan sinna veggja. Að sumu leyti má telja það eðlilegt að því leytinu til að þá setja þeir ákveðna forgangsröðun sem er eðlilegt í akademískri stofnun en þetta er fyrst og fremst vinnutæki við að úthluta fjármunum til skólanna. Ég tek það fram að þetta hefur ekki áhrif á heildarframlög til skólanna og af því að hér eru sérstaklega nefndar verk- og tæknigreinar er í raun gert ráð fyrir verulegri fjölgun í þeim flokki þannig að þetta ætti ekki að birtast í þeim prósentulega niðurskurði sem settur hefur verið fram.

Ég reyndi að útskýra þetta aðeins í grein um helgina en þessi endurskoðun hefur staðið yfir í samstarfi við forstöðumenn háskólanna.

Þetta er sem sagt þróunin sem hefur verið. Við eigum von á því að fá hugmyndir frá verkefnisstjórninni, um samstarf opinberu háskólanna, nú á haustmánuðum sem ætti að vísa inn í það hvernig vinnulagið verður fram undan, hvaða hagræðingu fólk sér í spilunum og hvernig fólk metur að þetta samstarfsnet muni virka sem best þannig að fyrri tímaáætlun sé haldið til haga.

Hv. þingmaður spyr hvort fólk eigi að geta tekið tvær til þrjár meistaragráður endurgjaldslaust í innlendum háskólum. Þær eru náttúrlega ekki endurgjaldslausar með öllu því að flestir taka lán úr Lánasjóði íslenskra námsmanna fyrir utan gjöld (Forseti hringir.) sem eru mismunandi milli skóla, og þar setur lánasjóðurinn ákveðnar takmarkanir með fimm ára reglunni og tíu ára reglunni, þannig að það er ekki endalaus aðgangur. (Forseti hringir.) En hins vegar vitum við að með áframhaldandi niðurskurði sjá skólarnir fram á erfiða tíma með það að geta tekið á móti öllum sem í þá sækja.