139. löggjafarþing — 14. fundur,  18. okt. 2010.

háskólamál.

[16:04]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Ég vil gjarnan koma með nokkur innlegg til viðbótar við þessa umræðu. Eitt sem mikið hefur verið tæpt á eru skilin milli ríkisháskóla og einkarekinna háskóla og sú hugmyndafræði að menntun sé einhvers konar fjárfesting. Menntun hefur gildi í sjálfu sér, hver svo sem hún er. Enginn fjárfestir á fjármálamarkaði mundi nokkurn tíma fjárfesta í menntun vegna þess einfaldlega að arðurinn af henni er of óviss. Menntun ber því að virða sem slíka. Hvað varðar hugsanleg framtíðarlaun fyrir menntun þá eru þau algjörlega óljós.

Ég tel líka að gera þurfi skýrari skil milli svokallaðs akademísks náms og fagnáms. Ég tel ekki að endilega eigi að taka upp skólagjöld í síðarnefndu námi en þetta er að mörgu leyti tvennt ólíkt. Fagnám er að mun meira leyti einhvers konar starfsþjálfun fyrir framtíðarstörf. Þarna finnst mér að þurfi að skilja betur á milli því að á Íslandi er tiltölulega óljóst hver skilin eru.

Hér tæpti einn þingmaður á því að fyrst og fremst þyrfti að vera til staðar fjölbreytt grunnnám í háskólum. Það tel ég vera alveg rétt. Fjölbreytt grunnnám á háskólastigi á Íslandi er nauðsynlegt. Af því sem ég hef séð þegar íslenskir stúdentar úr Háskóla Íslands hafa farið til framhaldsnáms erlendis hefur þeim vegnað vel og þeir hafa verið eftirsóttir stúdentar og náð mjög góðum árangri. Þarna held ég að áherslurnar þurfi að liggja miklu frekar en í meistaranámi og öðru slíku þar sem „resúrsarnir“ eru ekki nægilega góðir.

Að endingu langar mig að tæpa á því sem er kannski grundvallaratriði en það er að á Íslandi er í sjálfu sér ekki til almennilegt akademískt bókasafn fyrir háskóla. Ef ég mætti ráða yrðu byggðar fimm eða sex sambærilegar hæðir ofan á Þjóðarbókhlöðuna (Forseti hringir.) og þær einfaldlega fylltar af bókum.