139. löggjafarþing — 14. fundur,  18. okt. 2010.

atkvæðagreiðsla á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna.

52. mál
[16:14]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Það er ekki rétt hjá hv. þingmanni að skýringar hafi ekki komið fram á afstöðu Íslands þegar atkvæðagreiðslan fór fram með þessum hætti. Það kom algjörlega skýrt fram í ræðu fastafulltrúans og einnig í umræðu í fjölmiðlum dagana á eftir að þau ríki sem sátu hjá, þar á meðal Ísland, töldu að ekki ætti að knýja þessa atkvæðagreiðslu fram með þeim stutta fyrirvara sem var, heldur væri rétt að leyfa mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna í Genf að ljúka sinni vinnu, en þar var einmitt sérstaklega fjallað um aðgang að hreinu vatni og hreinlætisaðstöðu sem mannréttindamál. Ráðið átti að skila niðurstöðum sínum í haust og það lá alveg ljóst fyrir að við studdum markmið málsins, en hefðum ásamt nokkrum öðrum ríkjum talið rétt að þeirri vinnu væri lokið áður en allsherjarþingið samþykkti þessa pólitísku yfirlýsingu.

Um það hver ákvað hvaða afstaða yrði tekin í þessari atkvæðagreiðslu er það eitt að segja að í þessu máli eins og öllum, án undantekninga, er afstaðan tekin á ábyrgð ráðherra.

Hv. þingmaður spyr jafnframt hvort búið hafi verið að ræða um málið í utanríkismálanefnd. Svarið er nei, það var ekki búið að því. Ég hef verið innan í og utan á utanríkismálanefnd í hartnær 20 ár og ég man ekki eftir því að einstakar atkvæðagreiðslur á vettvangi Sameinuðu þjóðanna hafi komið þar til afgreiðslu.

Hv. þingmaður spyr hvort það sé líklegt að ímynd Íslands sem ósnortins hreins lands skaðist við þessa ákvörðun. Svarið er nei. Í kjölfar ræðu minnar á allsherjarþinginu þar sem ég fjallaði um mannréttindamál og fjallaði ítarlega um vatn og tengsl þess við mannréttindi, var Ísland m.a. beðið um að koma á alþjóðlegar ráðstefnur um vatnsgæði og vatnsvernd til að skýra hvernig við höfum unnið að slíkum málum, t.d. með verkefni okkar í Malaví í Afríku.

Einnig var Ísland beðið um að koma að alþjóðlegri stefnumótun um vatn og mannréttindi hins svokallaða græna hóps sem við eigum aðild að, en það er hópur smáríkja sem beitir sér fyrir því að hafa áhrif á stefnu alþjóðlegra stofnana og stóru ríkjanna varðandi loftslagsmál og umhverfisvernd.

Í fjórða lagi er spurt hvort þarna sé um stefnubreytingu að ræða hjá íslenskum stjórnvöldum. Það má segja að sú stefna sem núverandi ríkisstjórn hefur fylgt sé algjör stefnubreyting miðað við síðustu ríkisstjórn þar sem hv. þingmaður átti nú nokkra fulltrúa. Eins og menn muna spunnust miklar deilur í tíð síðustu ríkisstjórna vegna þess að einn tiltekinn flokkur fór hér fram með miklu offorsi og vildi slá einkaeignarrétti á vatn, vildi einkavæða vatnið. Hv. þingmaður og málshefjandi getur kannski rifjað það upp fyrir þingheimi hvaða flokkur það var. Stefna núverandi ríkisstjórnar, eins og hún kom t.d. fram í ræðu minni fyrir sléttum mánuði á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna, en hún fjallaði eingöngu um mannréttindi, var algjörlega tær og skýr eins og íslenskur fjallalækur. Þar lýsti ég stefnu Íslands með svofelldum orðum, í hrárri þýðingu og með leyfi forseta:

„Það er bjargföst skoðun íslenskra stjórnvalda að rétturinn til hreins drykkjarvatns og hreinlætis,“ — á ensku, með leyfi forseta: basic sanitation — „eigi að vera viðurkenndur sem mannréttindi. Slíkur aðgangur er nauðsynleg forsenda þess að einstaklingar geti lifað lífinu með reisn og notið annarra mannréttinda.“

Það er með öðrum orðum algjörlega tær og skýr afstaða íslensku ríkisstjórnarinnar að aðgangur að vatni sé ekki bara í sjálfu sér mannréttindi, heldur forsenda þess að maður geti notið annarra mannréttinda.