139. löggjafarþing — 14. fundur,  18. okt. 2010.

ný grundvallarstefna Atlantshafsbandalagsins.

62. mál
[16:28]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Þó okkur kunni að greina á um eitt held ég að við séum ákaflega sammála um afstöðu okkar til Atlantshafsbandalagsins. Ég hef stutt það eindregið að Ísland haldi áfram virku starfi innan þeirra samtaka. Sömuleiðis vil ég þakka hv. þingmanni fyrir að koma með þýðingu á enska hugtakinu New Strategic Concept sem hefur vafist fyrir mér og ég hef stundum kallað hina nýju grundvallarstefnu. Grunnstefna er auðvitað miklu einfaldara og betra orð.

Sem svar við fyrstu spurningu hv. þingmanns er það svo að ríkisstjórnin styður að ný framtíðarstefna bandalagsins verði lögð fram til samþykktar á leiðtogafundinum, sem hv. þingmaður gat um.

Ég tel að þó að málið hafi ekki verið rætt í þinginu hafi ég eigi að síður gætt þess að upplýsa hlutaðeigandi, þ.e. utanríkismálanefnd, nokkuð vel um framvindu þess. Ég get þess sérstaklega að ég beindi því með formlegum hætti til þingsins hvað væri undir í málinu með skýrslu um utanríkismál sem ég lagði til þingsins og var rædd í maí. Þar var fjallað ítarlega um stöðuna eins og hún var á þeim tíma. Þar með var þingmönnum, og eftir atvikum flokkum, í reynd gefinn kostur á að koma fram með afstöðu sína til þeirra mála og þeirra 15 áhersluatriða sem þar voru skráð.

Ég rifja það líka upp að framkvæmdastjóri NATO kom í heimsókn hingað í fyrra, skömmu eftir að hann tók við störfum. Þá átti hann fund, ekki bara með mér og forsætisráðherra heldur líka hv. utanríkismálanefnd, m.a. um þetta. Þar voru að vísu mörg mál undir. Að því leyti sem við í utanríkisráðuneytinu gátum undirbúið nefndina þá gerðum við það. Þetta var áður en hann hafði stofnað nefndina undir forustu kennara hv. þingmanns og málshefjanda. Málið var komið í farveg og við sendum þau 15 atriði sem íslenska framkvæmdarvaldið lagði áherslu á til utanríkismálanefndar. Hún hafði þau því undir höndum.

Sömuleiðis þegar Ronis, sem nú er orðinn utanríkisráðherra Letta, kom hingað til lands til að ræða við sérfræðinga og nefndina sömuleiðis, höfðum við samband við utanríkismálanefnd og spurðum hvort hún vildi fá aftur punktana 15 frá því að Anders Fogh Rasmussen kom hingað. Nefndin taldi ekki þörf á því. Til að greiða fyrir gagnlegum samræðum á millum nefndarinnar og Ronis sendum við nefndinni fundargerðir þeirra fjögurra funda eða málstofa sem haldnar höfðu verið um ýmis efni. Nefndin hafði því öll þau gögn sem lágu fyrir á þeim tíma.

Í skýrslu minni til Alþingis fjallaði ég um þetta og gat sérstaklega um sex mál sem Íslendingar á þeim tíma töldu rétt að árétta. Ástæðan fyrir því að þau voru ekki lengur 15 heldur sex var að tekið hafði verið tillit til ýmissa mála sem við höfðum lagt áherslu á. Þau sex mál voru í skýrslunni, ekki einungis vegna þess að við töldum að ekki væri nægilegur þungi á þeim, heldur vegna þess að við vildum árétta þau vegna mikilvægis þeirra frá sjónarhóli okkar. Þetta voru í fyrsta lagi sameiginlegar varnir bandalagsins sem helsta og mikilvægasta verkefni þess, í öðru lagi áhersla á ákvæði 5. gr. Washington-sáttmálans um gagnkvæmar varnarskuldbindingar og síðan í þriðja lagi að öryggishugtakið yrði skilgreint með víðtækari hætti. Í fjórða lagi var það mikilvægi norðurslóða, ekki síst með tilliti til afleiðinga gróðurhúsaáhrifanna. Í fimmta lagi hlutverk bandalagsins í afvopnunarmálum, þar með talið hvað kjarnorkumál varðar. Í sjötta lagi hlutverk bandalagsins við að framfylgja ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1325 um konur, frið og öryggi.

Eins og þingmenn vita, a.m.k. þeir sem fylgjast með þessum málum eins og ég veit að hv. þingmaður Ragnheiður Elín Árnadóttir gerir, og líkast til flestir í utanríkismálanefnd vita, lauk vitringahópurinn störfum með því að gefa út opinbera skýrslu með niðurstöðum sínum og er hún aðgengileg á netinu.

Fyrstu drög framkvæmdastjórans lágu síðan nýlega fyrir á hæsta trúnaðarstigi. Þau voru rædd á sameiginlegum fundi utanríkis- og varnarmálaráðherra bandalagsins í síðustu viku. Ég sótti þann fund. Í kjölfarið var gert ráð fyrir því að innan skamms kæmu ný drög frá framkvæmdastjóranum þar sem tekið væri tillit til ákveðinna viðhorfa sem hefðu komið fram. Það er a.m.k. blæbrigðamunur á millum velda. Þá verður málið kynnt fyrir utanríkismálanefnd í samræmi við 26. greinina og að því samráði loknu mun endanleg afstaða ríkisstjórnarinnar liggja fyrir. Eins og hv. þingmaður greindi frá sjálf þá verður leiðtogafundurinn sóttur af forsætisráðherra og líkast til mér einnig. (Forseti hringir.)