139. löggjafarþing — 14. fundur,  18. okt. 2010.

ný grundvallarstefna Atlantshafsbandalagsins.

62. mál
[16:37]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Þegar framkvæmdastjóri NATO lagði upp í þessa ferð, ég tek það fram að mér finnst hann hafa staðið sig afburðavel á stuttum ferli, þá lagði hann áherslu á þrjú meginatriði, þar á meðal sameiginlegar varnir. Það er eitt af því sem við höfum lagt mesta áherslu á í gegnum tíðina sökum okkar sérstöku stöðu sem herlaust land. Við erum í bandalaginu út af því. Ég veit að það er umdeilt en sú er staðreyndin.

Ég gæti farið yfir það hvernig áhersluatriði okkar hafa náð inn í plaggið. Sum hafa náð inn. Ég kýs frekar að gera það innan utanríkismálanefndar, þar get ég gert það, a.m.k. þangað til búið er að aflétta trúnaði. En þetta er mjög knappur texti og við höfum ekki náð fram öllu sem við höfum viljað. Eins og hv. þingmaður veit, af því hún nefndi eitt tiltekið landsvæði, hefur annað ríki innan NATO verið okkur mjög andstætt í þeim efnum og áherslna þess ríkis gætir nú töluvert.

Almennt vil ég segja að ég tel að þær ákvarðanir sem verið er að taka séu mjög þarfar. Þetta er þriðja endurskoðun á stefnu bandalagsins. Það hefur margt gerst frá því hún var endurskoðuð síðast. Framkvæmdastjórinn er líka að straumlínulaga bandalagið verulega. Hann er t.d. að skera það úr 14 skilgreindum einingum niður í þrjár. Það kostar átök að gera slíkt. Það er eins og þegar menn skera niður í ríki, þá eru margir sem verja hólmann sinn.

Hv. þm. Eygló Harðardóttir vildi að ég ræddi hverjar viðtökurnar hefðu verið við einstaka áherslum Íslands. Ég kýs heldur að gera það innan utanríkismálanefndar. Ég er reiðubúinn til þess og hef rekist á hv. þingmann innan þeirrar nefndar. Mér finnst það réttara á þessu stigi. En málinu er heldur ekki lokið, enn er verið að bræða ákveðnar hugmyndir og ekki er loku (Forseti hringir.) skotið fyrir það að plaggið kunni enn að breytast. Auðvitað er ágreiningur um hin stóru (Forseti hringir.) mál eins og t.d. kjarnorkustefnuna, fælingarmátt o.s.frv. Hann er til staðar innan bandalagsins eins og (Forseti hringir.) alltaf.