139. löggjafarþing — 14. fundur,  18. okt. 2010.

öryggi Hvalfjarðarganga.

3. mál
[16:41]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég er hér með fyrirspurn til hæstv. samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra um öryggi Hvalfjarðarganga. Hún er svohljóðandi:

1. Til hvaða aðgerða hefur verið gripið til að bæta öryggi Hvalfjarðarganga, en göngin fengu nýlega lægstu einkunn í úttekt á öryggi nokkurra evrópskra jarðganga?

2. Hefur komið til greina að stjórna hraða og flæði bíla í gegnum göngin í samræmi við öryggisreglur Mont Blanc ganganna?

Það varð okkur Íslendingum töluvert áfall þegar niðurstöður rannsóknar Euro TAP, sem eru hagsmunasamtök evrópskra bifreiðaeigenda, birtust í sumar af úttekt á 20 jarðgöngum þar sem Hvalfjarðargöngin fengu mjög slæma útreið. Í framhaldinu brugðust bæði þáverandi samgönguráðherra, Kristján Möller, og fyrirtækið Spölur, sem rekur þessi göng, mjög illa við. Ráðherrann vildi fyrst hafna þessum niðurstöðum en tók síðan fram í seinni viðtölum að hugsanlega væri hægt að banna flutning á eldsneyti í gegnum göngin og líka framúrakstur og þetta væri nokkuð sem væri ekki til staðar í öðrum göngum í Evrópu.

Ástæðan fyrir því að ég nefni sérstaklega Mont Blanc göngin er sú að fyrir nokkrum árum varð mikill eldur í göngunum þar sem 39 einstaklingar létu lífið og á mjög skömmum tíma urðu göngin að risastórum ofni þar sem hitastigið fór, held ég, upp í um 1.100°C og hitinn varð svo mikill að meira að segja malbikið brann inni í göngunum. Síðan þá hafa verið viðhafðar mjög miklar öryggisráðstafanir í þessum göngum. Ég keyrði sjálf núna í fyrsta skipti í gegnum þessi göng í sumar og það vakti einmitt athygli mína, í framhaldi af þessum niðurstöðum með Hvalfjarðargöngin, að það sem þeir gera þar, sem væri hægt að gera hér á mjög einfaldan hátt, er að þeir stjórna hraðanum á umferðinni í gegnum göngin. Það er ekki eins og hjá okkur þar sem öðrum megin eru engin takmörk á umferðinni í gegnum göngin heldur eru bílarnir oft mjög nálægt hver öðrum. Framúrakstur er leyfður í göngunum og eins og hér hefur komið fram er enn sem komið er leyfilegt að aka með eldsneyti í gegnum göngin, þó að fyrir liggi drög, að mér skilst, á vefsíðu ráðuneytisins, um að takmarka slíkt.

Ég spyr því hvort ráðuneytið hafi gripið til einhverra aðgerða í framhaldi af þessari niðurstöðu, hvort ætlunin sé að flýta þessari áætlun hjá Speli, sem nær alveg til 2014, um að auka öryggi í göngunum, hvort það komi til greina að stýra umferðinni eða flæðinu í gegnum göngin. Ég er mjög áhugasöm um að heyra þetta því að ég held að (Forseti hringir.) við getum dregið úr hættustiginu í göngunum (Forseti hringir.) með mjög einföldum og kostnaðarlitlum aðgerðum.