139. löggjafarþing — 14. fundur,  18. okt. 2010.

öryggi Hvalfjarðarganga.

3. mál
[16:44]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Eygló Harðardóttir beinir tveimur spurningum til mín sem lúta að öryggi í Hvalfjarðargöngunum. En svo háttar til að kröfur um öryggi í jarðgöngum hér á landi, þar á meðal í Hvalfjarðargöngunum, byggja á reglugerð nr. 992 sem sett var á árinu 2007. Reglugerðin var sett í framhaldi af og í samræmi við tilskipun Evrópusambandsins frá árinu 2004, um öryggiskröfur í jarðgöngum, á samevrópska vegakerfinu. Hv. þingmaður vísar í umræðu sem fram fór hér á landi í kjölfar þess að birt var úttekt sem gerð var af samtökum bifreiðaeigenda í Evrópu á öryggismálum í nokkrum jarðgöngum í álfunni, í svokölluðu Euro TAP-verkefni. Hvalfjarðargöng voru ein þeirra en í kjölfarið fól þáverandi samgönguráðherra Vegagerðinni að yfirfara allar ábendingar sem fram komu í þessari úttekt og meta gildi þeirra með hliðsjón af þeim öryggiskröfum sem gilda eiga um mannvirkið. Að þessu er nú unnið og ég kannaði það í morgun hvort niðurstöður lægju fyrir en svo er ekki. Markmiðið er að kanna til hlítar til hvaða aðgerða eigandi og rekstraraðili ganganna, Spölur ehf., ætlar að grípa til að bæta öryggismál í Hvalfjarðargöngunum.

Ljóst er að miðað við gildandi kröfur og reglur er veittur frestur til loka apríl árið 2014 til að endurnýja búnað í þessum göngum eins og öðrum. Spölur hefur lagt fram aðgerðaáætlun um endurbætur á öryggisbúnaði Hvalfjarðarganga og Vegagerðin mun hafa eftirlit með að áætlunin gangi eftir.

Það er rétt að taka fram að úttekt Euro TAP er í raun tvískipt. Annars vegar er metin áhætta vegfarenda sem um göngin fara og þar fá Hvalfjarðargöngin meðaleinkunn og eru í miðju þeirra 26 jarðganga í Evrópu sem skoðuð voru. Það er því ekki alls kostar rétt, sem haldið hefur verið fram, að göngin hafi verið metin meðal þeirra hættulegustu. Það kom fram í fjölmiðlaumfjöllun hér í sumar og það var ofsagt.

Hins vegar var lagt mat á öryggisbúnað ganganna miðað við tilteknar kröfur sem ekki eru í öllum tilfellum þær sömu og Evrópusambandið hefur samþykkt. Þar fengu Hvalfjarðargöngin slæma einkunn.

Eins og áður sagði liggur fyrir tímasett áætlun um endurbætur á þessum öryggisbúnaði og það er Spölur ehf. sem hefur það með höndum.

Þá spurði hv. þingmaður hvort til greina kæmi að stjórna hraða og flæði bíla í gegnum göngin í samræmi við öryggisreglur sem gilda í Mont Blanc göngunum. Reglur um hraða og flæði umferðar í jarðgöngum stjórnast ekki síst af fjölda bíla sem um göngin fara á hverjum tíma. Í Hvalfjarðargöngum er hámarkshraði 70 km á klukkustund eins og í Mont Blanc göngunum sem vitnað er til í fyrirspurninni. Sérstaða þeirra ganga er hins vegar sú að um þau fer mikill fjöldi flutningabíla, allt að 2.000 bílar á dag. Þjóðir hafa því almennt ekki yfirfært þær reglur sem þar gilda á hefðbundin veggöng.

Þetta svar byggir á upplýsingum sem samgönguráðuneytið hefur reitt fram. En eins og ég segi þá er Vegagerðin að gera á þessu úttekt. Niðurstöður liggja enn ekki fyrir en það er mikilvægt að taka þessa umræðu um öryggiskröfur í Hvalfjarðargöngunum sem öðrum jarðgöngum alvarlega og ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að gera það.