139. löggjafarþing — 14. fundur,  18. okt. 2010.

efnahagur Byggðastofnunar.

14. mál
[17:04]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé mjög mikilvægt í allri þessari umræðu að við áttum okkur á því að sama þó að þessar 700 milljónir færu ekki inn á afskriftareikning eins og raun ber vitni þyrftum við samt sem áður að taka allt lánafyrirkomulagið varðandi Byggðastofnun til gagngerrar endurskoðunar og umræðu og fara vandlega yfir það hvernig Alþingi og fjárveitingavaldið ætla að standa á bak við Byggðastofnun. Staðreyndin er sú að Byggðastofnun hefur veitt lán til áhættusamari rekstrar eða til efnahagslega kaldra svæða sem aðrar lánastofnanir lána ekki til. Það hlutverk skiptir auðvitað máli vegna þess að það þarf að sinna þeim landshlutum. Þess vegna þurfum við gagngert að skoða hvernig við ætlum að hafa fyrirkomulagið til lengri tíma litið, til allrar framtíðar þannig að stofnunin geti á hverjum tíma verið nokkuð örugg um stuðning frá þinginu. Það hefur verið þannig að menn hafa safnað upp vanda sem síðan hefur verið greiddur upp og lagfærður í slumpum, má segja, endrum og sinnum.

Við þurfum að koma þessum málum í varanlegt horf og það er von mín að sá hópur sem ég og fjármálaráðherra ætlum að setja í þetta verkefni muni koma með lausn. Það verður líka mikilvægt að hafa stuðning frá Alþingi, þaðan sem fjárveitingarnar koma, gagnvart því að líta á lánastarfsemi Byggðastofnunar og hið samfélagslega hlutverk hennar sem gilda ástæðu til þess að tryggja fjármagn til hennar. Það tel ég að skipti sköpum til þess að lánastarfsemin geti haldið áfram en verði ekki síendurtekið fyrir höggi hreinlega af því að lánað er til áhættusamari svæða og geira.