139. löggjafarþing — 14. fundur,  18. okt. 2010.

auglýsingastjóri og dagskrárráð Ríkisútvarpsins.

34. mál
[17:06]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. Samkvæmt fréttum DV frá í júlí í sumar situr auglýsingastjóri Ríkisútvarpsins ohf. í dagskrárráði Rásar 2 og markaðsstjóri Ríkisútvarpsins ohf. situr í dagskrárráði sjónvarpsins en það er óljóst hvernig málum er fyrir komið í dagskrárráði Rásar 2.

Um það blogguðu á sínum tíma tveir gamlir fjölmiðlamenn og annar þeirra, Eiður Guðnason, fyrrverandi sjónvarpsmaður, þingmaður, ráðherra og sendiherra, sagði í bloggi sínu að hann teldi að auglýsingadeildin á Ríkisútvarpinu hefði ráðið miklu um dagskrá útvarps og sjónvarps.

Svo segir hann, með leyfi forseta:

„Í helgarblaði DV 16.–18. júlí kemur nefnilega fram að auglýsingastjóri RÚV situr í dagskrárráði Rásar 2 og markaðsstjóri RÚV situr í dagskrárráði sjónvarpsins. Þarf frekar vitnanna við? Nú skilur fólk betur af hverju Sigmar Guðmundsson Kastljóssstjóri fékk bágt fyrir að tala um auglýsingahórarí m.a. á Rás tvö. Kannski verður Ríkisútvarpið bráðum eins og Útvarp Saga“, segir Eiður Guðnason, „þar sem mörkin milli dagskrárefnis og auglýsinga eru löngu horfin.“

Hinn reyndi fjölmiðlamaðurinn sem bloggaði um þetta sagði af því tilefni sögu af ritstjóra Chicago Tribune sem hafði tvær lyftur í skýjakljúfnum sínum, önnur var fyrir ritstjórn og hin fyrir auglýsingarnar. Svo segir hann sögu af öðru blaði í Bandaríkjunum þar sem þessu var blandað öllu saman og áskriftartekjurnar hrundu og fyrirsögnin hjá Jónasi, sem tekur yfirleitt þannig til orða að maður leggur við hlustir, er: Fjölmiðill varð að hóruhúsi.

Ég vona að það sé ofsagt um Efstaleitið en ummæli þessara reyndu fjölmiðlamanna segja eiginlega allt sem segja þarf í bili um þessa frétt ef hún er sannleikanum samkvæm og ef ummæli starfsmanna Ríkisútvarpsins um þetta sem birtust í DV og í öðrum fjölmiðlum, eru höfð rétt eftir. Það er auðvitað sérkennilegt eftir verulega umræðu á undanförnum árum um hvað það sé mikilvægt að ritstjórn og dagskrárstjórn séu sjálfstæðar og taki fyrst og fremst tillit til neytenda sinna, lesenda eða áheyrenda eða áhorfenda. Í átökunum um fjölmiðlafrumvarpið fræga var einmitt rætt um hvernig tryggja mætti trúnað ritstjórnar og fjölmiðlaneytenda fram hjá sérstökum hagsmunum eigenda og fram hjá auglýsendahagsmunum. Hér á eftir er einmitt fyrirspurn um það hvernig fjölmiðlarnir hafi brugðist við athugasemdum í hinni ágætu rannsóknarskýrslu frá því fyrr á þessu ári.

Þótt ekki hafi gengið vel í fjölmiðlum okkar á síðustu missirum ætlast menn til að Ríkisútvarpið sé fyrirmynd að ákveðnu leyti. Það er kannski gamaldags en það er þannig og hér er auðvitað gengið mjög einkennilega fram. Ég geri ráð fyrir að menntamálaráðherra hafi fengið eitt af hinum þurrlegu svörum sem yfirmenn RÚV ohf. veita (Forseti hringir.) ráðherra um þetta efni og vona að ráðherrann bæti sjálf (Forseti hringir.) við áliti sínu og úrræðum í þessu efni.