139. löggjafarþing — 14. fundur,  18. okt. 2010.

auglýsingastjóri og dagskrárráð Ríkisútvarpsins.

34. mál
[17:09]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Merði Árnasyni fyrirspurnina sem ég sendi Ríkisútvarpinu ohf. og óskaði eftir skýringum. Í svari Ríkisútvarpsins ohf. kom fram að í dagskrárráði Rásar 2 sæti Einar Logi Vignisson, sem er auglýsingastjóri Ríkisútvarpsins af því að hann væri hugmyndaríkur og tillögugóður starfsmaður. Ríkisútvarpið upplýsti einnig að stöðuheitinu auglýsingastjóri fylgdi ekki sjálfkrafa seta í dagskrárráði en með því fyrirkomulagi ynnist það að það svið innan RÚV sem sæi um að kynna dagskrá og selja auglýsingar í tengslum við hana vissi frá fyrstu hendi hvað fram undan væri í dagskránni. Skýringin var því í raun sögð vera sú að það væri mikilvægt að auglýsingastjóri væri upplýstur um þá dagskrá sem fram undan væri til þess að geta skipulagt auglýsingaöflun í kringum dagskrána.

Í svari Ríkisútvarpsins segir enn fremur:

„Endanlegar dagskrárákvarðanir liggja hins vegar ekki hjá dagskrárráði heldur hjá dagskrárstjóra þannig að dagskrárráðið er fremur til ráðgjafar en til ákvörðunar.“

Mig langar að nefna að við erum auðvitað með gildandi útvarpslög og þar kemur mjög skýrt fram að auglýsingar skuli vera auðþekkjanlegar sem slíkar, þær skuli vera skýrt afmarkaðar frá öðru dagskrárefni með mynd, skilti eða hljóðmerki, eins og orðað er í 16. gr. útvarpslaga. Þá skulu auglýsingar fluttar í sérstökum almennum auglýsingatímum milli dagskrárliða og enn fremur er óheimilt að skjóta auglýsingum inn í útsendingu á guðsþjónustu eða trúarlegri dagskrá, fréttum eða fréttatengdum dagskrárliðum eða dagskrá fyrir börn. Markmiðið að baki ákvæðinu má ljóst vera að ætlunin er að blanda ekki saman auglýsingum annars vegar og ritstjórnarefni hins vegar þannig að áhorfendum eða lesendum sé ávallt ljóst að um auglýsingu sé að ræða og frá hverjum hún stafi.

Annað dæmi um hvernig þessi mál birtast í lögum er að á síðasta þingi var til umfjöllunar fjölmiðlafrumvarp sem ég ætla að leggja fram nú á haustþingi að nýju. Það er að hluta til innleiðing á Evróputilskipun og þar má sjá þann mikla mun sem er á auglýsingareglum innan EES-svæðisins annars vegar og t.d. í Bandaríkjunum. Í EES-löggjöfinni eru mjög skýrar reglur um hversu miklar auglýsingar megi vera, þær mega einungis vera 12 mínútur á klukkustund — sjálfri finnst mér það ansi vel í lagt, satt að segja — og auglýsingahlé mega aðeins vera með ákveðnu millibili. Í Bandaríkjunum eru engar slíkar reglur og áferð sjónvarps er mjög ólík milli þessara tveggja heimsálfa.

Í ákvæðum gildandi laga og þessa frumvarps er reynt að koma í veg fyrir að auglýsingar hafi áhrif á dagskrárgerð eða efnistök með einhverjum hætti. Ég vonast til þess til að mynda, verði þetta frumvarp um fjölmiðla að lögum, að það verði skýrari reglusetning um auglýsingar og dagskrárefni.

Annað sem þessu tengist er að verið er að leggja lokahönd á endurskoðun á þjónustusamningi Ríkisútvarpsins og mennta- og menningarmálaráðuneytisins. Þar leggjum við áherslu á að reyna að skýra betur hlutverk útvarps í almannaþágu og þar á meðal aðgreiningu dagskrár og auglýsinga. Það er kannski komið að þeirri spurningu sem hv. þingmaður setur fram: Getur það verið slæmt fyrir dagskrárefni að samskipti auglýsingadeilda annars vegar og dagskrárdeilda hins vegar séu jafnmikil og raun ber vitni? Ég reikna því með að við munum skoða það sérstaklega við endurskoðun þjónustusamningsins hvernig við getum gert þau skil skarpari.