139. löggjafarþing — 14. fundur,  18. okt. 2010.

samvinna mennta- og menningarstofnana á Suðurlandi.

36. mál
[17:36]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni þessa fyrirspurn og get tekið undir vonir hennar um að Landeyjahöfn virki sem skyldi og að sú leið milli lands og Eyja haldist opin.

Hv. þingmaður vísaði hér sérstaklega í framhaldsdeild, þ.e. nám á framhaldsskólastigi kringum Hvolsvöll. Það var rætt í þinginu í fyrra að starfshópur á vegum ráðuneytisins og heimamanna í Rangárþingi mat grundvöll þess að bjóða upp á framhaldsskólanám í Rangárvallasýslu. Sá hópur skilaði skýrslu um málið á vormánuðum 2009. Ekki var talið koma til greina að stofna sjálfstæðan framhaldsskóla en hins vegar kæmi til greina að reka þar útibú eða starfsstöð í samstarfi við starfandi framhaldsskóla þar sem í boði væri a.m.k. hluti af námi til stúdentsprófs jafnvel í gegnum fjarnám.

Beinast lá við á þeim tíma að slíkt samstarf yrði við Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi en möguleikar þeir sem hv. þingmaður bendir á með tilkomu Landeyjahafnar eru vissulega mjög áhugaverðir. Ég veit að nokkuð hefur verið rætt í Vestmannaeyjum að skoða þessa möguleika og við erum að sjálfsögðu reiðubúin að kanna þá og munum vilja ræða þá við heimamenn.

Hvað varðar rekstur framhaldsdeildanna almennt, þ.e. útibúa, get ég tekið undir það með hv. þingmanni að þetta hefur auðvitað skipt miklu máli þar sem slíkt nám hefur verið í boði, annars vegar almennt framhaldsskólanám eða einhverjar slíkar deildir því að það skiptir gríðarlegu máli fyrir foreldra að geta haft börn sín heima hjá sér lengur en til 16 ára aldurs og auðvitað hefur breytt lagaumhverfi þar sem börn eru börn lengur, þau eru börn til 18 ára aldurs, haft áhrif á þá stefnubreytingu sem hefur orðið í þessum málum á undanförnum árum.

Hvað varðar samstarf menningarstofnana þá rekur ríkið engar menningarstofnanir á Suðurlandi en hins vegar hefur verið unnið markvisst að uppbyggingu menningarmála á Suðurlandi á undanförnum árum og er það í góðu samstarfi við heimamenn. Gerðir hafa verið samningar um stuðning við uppbyggingu og rekstur einstakra safna og setra, svo sem við Byggða- og samgönguminjasafnið á Skógum, Heklusetur og Þórbergssetur.

Hvað uppbyggingu menningarhúsa varðar er í gildi samkomulag milli ráðuneytisins og Vestmannaeyjabæjar um byggingu menningarhúss frá árinu 2009. Þar er gert ráð fyrir að byggingarnar verði ekki einungis vettvangur menningar- og safnastarfsemi í Vestmannaeyjum heldur eiga þær að gegna lykilhlutverki sem slíkar á Suðurlandi. Kannski er það svo af því að við höfum stundum rætt um tilkomu menningarsamninga og árangur af þeim að með tilkomu menningarsamnings við Suðurland hefur starfsemi á sviði menningarmála vissulega orðið faglegri. Fjögur ár eru liðin frá því að samningur var fyrst undirritaður og það er mál manna að þessir samningar hafi skipt verulegu máli í þróun og samstarfi sveitarfélaga, ekki síst á Suðurlandi. Nefna má að safnaklasi Suðurlands hefur vakið verðskuldaða athygli, en verkefnið fékk stuðning úr vaxtarsamningi stjórnvalda og menningarfulltrúi Suðurlands hefur tekið að sér framkvæmdastjórn safnahelganna árin 2009 og 2010. Afrakstur þess samstarfs er að um 60 söfn og setur á Suðurlandi eru í samstarfi, gefinn er út bæklingur um söfn á Suðurlandi, safnahelgin er haldin árlega og safnaklasinn varð að samtökum safna á Suðurlandi og er nú rekinn sem félag. Ég vænti þess að það samstarf fái byr undir báða vængi með tilkomu Landeyjahafnar og betri tengingu Vestmannaeyja við meginlandið.

Um áramótin verður endurnýjaður menningarsamningur við Suðurland. Landsvæðið stækkar, Höfn í Hornafirði er orðinn hluti af Suðurlandi í þessu samstarfi. Nýtt menningarráð var skipað um miðjan september sl. Formaður þess kemur frá Vestmannaeyjum. Ráðið er núna fyrst að byrja sitt samstarf en það er ljóst að það mun endurskoða stefnu sína í menningarmálefnum á Suðurlandi, bæði vegna þess að svæðið er að stækka og líka út af samgöngubótum til Eyja.

Menningarfulltrúi Suðurlands telur að aukin samvinna mennta- og menningarstofnana á Suðurlandi og tækifærin sem hafa opnast í tengslum við opnun Landeyjahafnar verði mjög til umræðu í þeirri vinnu. Þó að auðvitað sé ekki komin löng reynsla á þær breytingar sem hafa skapast í samgöngum á milli lands og Eyja get ég fyrst og fremst sagt að við í mennta- og menningarráðuneytinu erum mjög tilbúin til samstarfs við Sunnlendinga um hvernig við getum eflt þetta samstarf með því að nýta þessa miklu samgöngubót. Eins og ég nefndi í máli mínu hefur ráðuneytið á undanförnum árum byggt undir slíkt samstarf með ýmsum hætti og við teljum að þetta tryggi þær stoðir enn frekar.