139. löggjafarþing — 15. fundur,  19. okt. 2010.

störf þingsins.

[14:05]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Í Fréttablaðinu í dag er forsíðufrétt sem gengur út á að Vinstri grænir vilji ekki styrki frá Evrópusambandinu. Það kemur fram í blaðinu að talsverð andstaða sé við þessa styrki innan stjórnmálaflokksins andstætt vilja Samfylkingarinnar og er sú skoðun ríkjandi að því er virðist vera. Það breytir því þó ekki að tveir ráðherrar Vinstri grænna eru með þessa styrki, umsóknarferlið og þiggja þá, það eru þeir hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Áður en hæstv. dómsmála- og mannréttindaráðherra Ögmundur Jónasson tók við lá fyrir að vilji hefði verið í báðum ráðuneytum að þiggja þessa styrki en samkvæmt upplýsingum Fréttablaðsins hefur hæstv. ráðherra Ögmundur Jónasson sett þá ákvörðun á frost vegna andstöðu sinnar við styrkina sem nema rúmum 4 milljörðum.

Þessir styrkir eru veittir til þjóða sem eru í aðlögunarferli að Evrópusambandinu og það tekur greinilega pínu í hjarta hæstv. dómsmálaráðherra og samvisku að þiggja ekki styrkina, því verður áframhaldandi ákvörðun hans um þetta nokkuð erfið.

Í tilefni af því langar mig til að spyrja hv. þm. Ásmund Einar Daðason: Hver er vilji grasrótarinnar í Vinstri grænum gagnvart þessum styrkjum? Hver er vilji þingmanna Vinstri grænna á þingi gagnvart þessum styrkjum? Þrátt fyrir að ráðherrar Vinstri grænna þurfi að trimma í takt við ráðherra Samfylkingarinnar er ekki víst að það sé einlægur vilji Vinstri grænna að fara þá leið og taka við þessum peningum frá Evrópusambandinu.