139. löggjafarþing — 15. fundur,  19. okt. 2010.

störf þingsins.

[14:16]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég ætla hvorki að ræða um mútufé frá Evrópusambandinu né mannréttindamál í Kína þó að hvort tveggja sé mjög áhugavert. Ég ætla að ræða um vanda heimilanna og alveg sérstaklega þá tilfinningu sem ég hef að hv. þingmenn og ráðamenn sigli allir skipi þar sem búið sé að byrgja alla glugga í brúnni þannig að þeir sjái ekkert út.

Það eru margar hugmyndir í gangi um hvernig eigi að leysa þennan vanda en það veit í rauninni enginn hver vandinn er. Ég vil leggja til við allan hv. þingheim að menn vinni saman að því að gera könnun á stöðu heimilanna, allra heimila, líka leigjenda, líka heimila sem eru skuldlaus. Þetta liggur allt fyrir, það er til í tölvum, við lifum á tölvuöld. Þetta væri hægt að gera mjög hratt og vel ef Alþingi mundi búa lagalegar forsendur undir slíka könnun, t.d. með því að hafa persónuvernd í huga, bankaleynd og annað slíkt, þá væri örugglega hægt að gera þetta á örstuttum tíma, segjum tveim vikum eða þrem. Þá mundu menn vita hvað þeir væru að tala um. Allar þær leiðir sem hafa verið ræddar, almenn niðurfelling skulda og sértækar leiðir, finnst mér sjálfsagt að skoða en við þurfum að vita hvernig þær koma út fyrir einstök heimili. Við þurfum að vita hver staða heimilanna er, hversu mörg heimili eru atvinnulaus og jafnframt með neikvæða eiginfjárstöðu og í vanda o.s.frv. Þetta þurfum við að skoða, hv. þingmenn. Ég skora á hv. þingheim allan að vinna að þessu hratt og vel þannig að við sjáum pínulítið til vegar þegar við siglum skipinu í gegnum skerjagarðinn.