139. löggjafarþing — 15. fundur,  19. okt. 2010.

störf þingsins.

[14:18]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Þessi liður á dagskrá hefur sannað gildi sitt því að nú hafa margar nýjar upplýsingar komið í ljós sem þingheimur vissi ekki af, samanber að tekin hefði verið ákvörðun í utanríkismálanefnd um að láta IPA-styrkina bíða. Það lá ekki fyrir áður. Þrátt fyrir það kemur fram í Fréttablaðinu í dag, samkvæmt öruggum heimildum ef Fréttablaðið er örugg heimild ef út í það er farið, að þessir styrkir séu enn í fullu gildi. Hv. þm. Ásmundur Einar Daðason benti mér t.d. á að TAIEX-styrkirnir væru í fullum gangi í samfélaginu en þeir styrkir eru til þess að senda hingað erlenda sendimenn og fræðinga til að bæta ímynd Evrópusambandsins.

Enn og aftur hefur verið gert uppvíst að núverandi ríkisstjórn segir bara hálfsannleik í málinu. Ríkisstjórnin ætlar að komast ansi langt á því í störfum sínum að segja bara hálfsannleik. Þessir styrkir eru t.d. líka notaðir til að senda íslenskar sendinefndir til Brussel til að kynna þeim störf Evrópusambandsins. Nú verður hæstv. utanríkisráðherra mjög órólegur í sæti sínu að venju þegar ég tala en hann verður að eiga það við sig. [Hlátur í þingsal.] Ég veit að honum þykir erfitt þegar málefni Evrópusambandsins eru á dagskrá Alþingis Íslendinga því að við vitum alveg hvaða leið hann ætlar með íslensku þjóðina. (Utanrrh.: En af hverju eruð þið að ...?) Lögð var fram þingsályktunartillaga nú klukkan tvö sem gengur út á að þjóðin fái að kjósa um það samhliða stjórnlagaþingskosningunni 27. nóvember hvort halda eigi þessari ferð áfram eða ekki. Hæstv. utanríkisráðherra iðar í sæti sínu af því að honum er svo illa við að lýðræðið fái að lifa.