139. löggjafarþing — 15. fundur,  19. okt. 2010.

störf þingsins.

[14:22]
Horfa

Þráinn Bertelsson (Vg):

Frú forseti. Ég kveð mér hljóðs í framhaldi af orðaskiptum hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur og Ásmundar Einars Daðasonar varðandi þá styrki sem Íslendingum ku standa til boða frá Evrópusambandinu. Frá því að hér var afgreidd samþykkt um að sækja um aðild að Evrópusambandinu hef ég heyrt fjöldamargar fyrirspurnir um hvað það kosti allt saman og hvílík byrði það verði á fólkinu í landinu o.s.frv. Ég hef hlustað á lærð svör ráðherra úr hinum ýmsu ráðuneytum við þessum endalausu spurningum. Núna snýst dæmið við og spurt er hvort eigi að þiggja hina lífshættulegu áróðursstyrki sem standa til boða, hvort við Íslendingar ætlum virkilega að óhreinka okkur með því.

Þetta mál er ofsalega einfalt. Það er umsóknarferli í gangi og því fylgir ýmislegt. Því fylgir upplýsingaöflun og kynning og ef menn eru með opinn huga vilja þeir kynna sér Evrópusambandið og það sem þar stendur til boða. Svo er hópur fólks sem greinilega hefur það fyrir sitt rórill að Evrópusambandið sé skelfileg samkoma sem hvorki beri að snerta með töngum né neitt sem frá því sambandi kemur. Við komumst ekki lengra með þessa blessuðu umræðu. Mér finnst hún vera öllum til skammar sem standa í henni. Málin eru eins og þau eru, við skulum sjá til. (Forseti hringir.) Þjóðin ákveður á endanum hvort við förum í þetta samband eða ekki og það er vel.