139. löggjafarþing — 15. fundur,  19. okt. 2010.

störf þingsins.

[14:27]
Horfa

Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda, hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni, fyrir þessa fyrirspurn. Hún lýtur að afar mikilvægu málefni í samfélagi okkar sem er kristilegt siðgæði og sambúð ríkis og kirkju í einhverjum skilningi. Hann fór vel yfir þau sjónarmið sem koma fram í markmiðsgrein laganna um grunnskóla þar sem er m.a. fjallað um umburðarlyndi, náungakærleik og kristna arfleifð.

Ég get svarað hv. þingmanni strax. Ég tel sannarlega að það sé einnar messu virði að kalla menntamálanefnd saman til að fjalla um þær áherslur sem fram hafa komið í fréttum og að menntamálanefnd þingsins fari vel í gegnum þær fyrirætlanir sem koma fram í vinnu Reykjavíkurborgar hvað þetta varðar og þær tillögur sem liggja fyrir frá mannréttindanefndinni. Ég tek þessari áskorun því fagnandi og mun kalla nefndina saman við fyrsta tækifæri.

Ég tel almennt séð að við eigum að fara með þessi mál, málefni þjóðkirkjunnar og sérstaklega umfjöllun um kristilegt siðgæði og kristileg gildi, þannig að börnin í landinu eigi skilyrðislaust að fá innsýn í þau, eins og reyndar siðgæðismál almennt. Ég hef tekið eftir því í þinginu að komið hafa fram tillögur um að heimspeki verði tekin upp sem skyldugrein í grunnskólum landsins og held ég að ágætur bragur væri á því að við stigum það skref, sérstaklega í kjölfar þeirra hörmunga sem dunið hafa yfir þjóðina á undanförnum missirum og tengjast m.a. þeim siðferðisbresti sem við höfum orðið vitni að.