139. löggjafarþing — 15. fundur,  19. okt. 2010.

fjáraukalög 2010.

76. mál
[14:58]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. ráðherra fyrir yfirferðina sem var kannski talnaleikur enda eðlilegt. En það eru tveir stórir liðir sem skapa þetta svigrúm, sem ég fagna að sjálfsögðu, sem verður í viðsnúningi á rekstri ríkisins á árinu 2010. Það er annars vegar sala eigna og hins vegar lægri vaxtagjöld.

Mig langar að spyrja hæstv. fjármálaráðherra út í þann lið sem er stærstur í sölu eigna, hið svokallaða Avens-samkomulag, þ.e. viðskipti og kaup á aflandskrónum erlendis. Tekjuauki ríkissjóðs af því er 17,5 milljarðar. Samkomulagið er gert í ljósi gjaldeyrishafta og keyptar eru krónur á svokölluðu aflandsgengi. Greiðslan fyrir þessi jöklabréf fer þannig fram að annars vegar eru greiddar 35 millj. evra og síðan 5 milljarðar í íslenskum krónum í reiðufé og hins vegar er gefið út skuldabréf upp á yfir 400 millj. evra til 15 ára. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort honum finnist eðlilegt að tekjufæra þetta strax inn á árið 2010 fremur en að deila hagnaðinum niður á 15 ár í samræmi við skuldabréfið.

Síðan vil ég spyrja hæstv. fjármálaráðherra einnar spurningar til viðbótar, sérstaklega í ljósi ástandsins hér á landi þegar tugir þúsunda fjölskyldna eru að missa heimili sín, hvort hann sé ekki með smáóbragð í munni að mæla fyrir því að kaupa sendiherrabústað fyrir 870 millj. kr. við þessar aðstæður. Ég æski þess að hæstv. ráðherra svari þessu skilmerkilega.