139. löggjafarþing — 15. fundur,  19. okt. 2010.

fjáraukalög 2010.

76. mál
[16:03]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil nú segja við hv. þm. Ásbjörn Óttarsson að ég held að heimildir hafi allar verið til staðar í lögum varðandi eignabreytingar í sendiherrabústöðum þannig að það þarf ekki að afla þeirra sjálfstætt núna. Það er hins vegar verið að sýna fjárhagslegu niðurstöðuna. Ef ég man rétt eru í fjárlögum yfirstandandi árs tilteknar heimildir til að selja og kaupa í staðinn ódýrara o.s.frv., gott ef þær voru ekki í fjárlögum ársins í fyrra líka. Svo geta menn endalaust velt því fyrir sér hvort þetta sé sú ráðstöfun fjár sem þeir vilja eða vilja ekki, en ég bendi á að það er þá hægt að selja bústaðinn. Hann er upp á nærri 900 milljónir. Ef menn telja sig ekki hafa efni á því að eiga hann á næsta ári er hægt að leita að leiguhúsnæði og selja hann. Það er ekki eins og þarna sé verið að henda peningum. Það er verið að festa þá í næstum helmingi ódýrara húsnæði en áður var og það sem ég hef aðallega áhyggjur af er hvort menn selji eignina á besta tíma. Þótt okkur langi til að innleysa söluhagnað vegna verðmætra eigna má auðvitað ekki selja nema fyrir það fáist fullnægjandi verð. Það er m.a. ástæða þess að sendiherrabústaðurinn í Washington hefur ekki verið seldur þrátt fyrir heimild þar um.

Varðandi skattana og þá umræðu þarf nú aðeins meiri tíma en 49 sekúndur í það. Ég vil bara benda hv. þingmönnum á að með þeim breytingum sem gerðar voru í fyrra er rétt verið að halda í horfinu hvað varðar skatttekjur sem hlutfall af vergri landsframleiðslu, það er nú allt og sumt. Álagning beinu skattanna tókst mjög vel. Það tókst að hlífa öllum sem eru með tekjur undir 5–7 milljónum á ári við skattahækkunum og reyndar greiða þessir hópar lægra hlutfall ráðstöfunar tekna sinna í skatta á árinu 2010 en árinu 2009. Það er fyrst og fremst hátekjufólkið sem greiðir eitthvað umtalsvert hærra hlutfall tekna sinna, enda er það væntanlega helst aflögufært. Hefðum við ekki farið í þær tekjuöflunaraðgerðir sem t.d. tryggingagjaldið og virðisaukaskatturinn skila væri hallinn á ríkissjóði 10–20 milljörðum meiri en ella stefnir í. Það er svo einfalt.