139. löggjafarþing — 15. fundur,  19. okt. 2010.

fjárhagsstaða sveitarfélaganna.

[16:16]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Hvað er fram undan? spyr hv. þm. Kristján Þór Júlíusson. Ég þakka honum sérstaklega fyrir að hefja þessa umræðu. Það sama blasir náttúrlega við hjá okkur öllum, íslenska samfélaginu, að við stöndum frammi fyrir efnahagserfiðleikum. Það á við um ríkissjóð og það á við um sveitarsjóðina, allflesta, þótt ekki sé rétt að setja öll sveitarfélögin undir sama hatt hvað þetta snertir. Öll eiga þau í erfiðleikum en mismiklum þó. Ekki er alveg sanngjarnt að tala um samráðsleysi vegna þess að það sem vakti mest athygli mína við að koma inn á þennan vettvang sem ráðherra sveitarstjórnarmála er hve kröftugt samstarf ríkir um flesta málaflokka. Við erum t.d. að taka á málum sem lúta að endurskoðun tekjustofna sveitarfélaganna, síðan eru öll fjárhagsleg samskipti sveitarfélaga og ríkis einnig í endurskoðun þar sem m.a. er vikið að þeim þáttum sem hv. þingmaður bendir réttilega á, að skuldbindingar ríkisins í lögum og samningum sem það gerir hefur vissulega áhrif á fjárhagsútlát sveitarfélaganna. Þetta þarf að komast í betri farveg. Um það eru menn sammála.

En hvað vakir fyrir ríkinu í þessum samskiptum? Jú, það er að halda eins vel utan um sveitarfélögin frá okkar hlið og við eigum kost á. Ég vil nefna þar t.d. flutning á málefnum fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga. Það er búið svo um hnútana við þennan flutning að ekki minni upphæð, svipuð eða ívið meiri upphæð en fer í þennan málaflokk nú hjá ríkinu fylgir með yfir til sveitarfélaganna, auk þess sem gert er ráð fyrir tímabundinni einskiptisupphæð til að kosta þennan flutning. Það má færa rök fyrir því að það hefði verið ódýrara fyrir ríkið að halda málaflokknum hjá ríkinu en að færa hann yfir. Það er hins vegar mat allra aðila sem koma að þessum málum eða allflestra að þeim sé betur borgið hjá sveitarfélögum en hjá ríkinu, að þjónustan við fatlaða verði betri fyrir bragðið og þess vegna er ráðist í þessar breytingar.

Ýmsir þættir hafa verið til umræðu á vettvangi sveitarfélaganna. Ég nefni þar sérstaklega tryggingagjaldið sem var hækkað í tengslum við síðustu kjarasamninga, var fyrir ekki svo ýkja löngu 5,34%, fór upp í 7% og síðan 8,6%. Sveitarfélögin hafa óskað eftir því að ríkið haldi sig við það þak sem sett var í 7 prósentustigum en munurinn á milli 7% og 8,65% er um 1.400 millj. kr. Af hálfu fjármálaráðuneytisins var hins vegar alltaf bent á það að þetta væri tímabundin aðgerð. Sama gildir í reyndinni um aðra upphæð sem sveitarfélögin hafa óskað eftir umræðu um, þ.e. sérstakt gjald í jöfnunarsjóð. Það hefur verið við lýði allar götur frá 1999 og endurskoðað á hverju ári. Núna, við fjárhagserfiðleika ríkissjóðs, eru áhöld um hvernig haldið verði á málum en fjármálaráðherra hefur lýst því yfir á sameiginlegum fundi með sveitarfélögunum að þessu máli hafi ekki enn verið lokað.

Þriðja atriðið sem ég vil nefna og hefur verið til umræðu hjá sveitarfélögunum er húsaleigubætur. Þar er vandinn mikill, einfaldlega vegna þess að fólk er að fara úr séreignarhúsnæði yfir á leigumarkað. Það kallar á aukin útgjöld þar.

Talað hefur verið um að ríkið sé að draga úr þessu framlagi en staðreyndin er sú að ríkið mun standa við sinn hlut, 60% greiðsla í almennar húsaleigubætur. Út af standa þá sérstakar húsaleigubætur, það er nokkuð sem við eigum í vandræðum með. Ég vek hér athygli á þeim þáttum sem sveitarfélögin og fulltrúar þeirra hafa efnt til umræðu um á sameiginlegum vettvangi okkar að undanförnu, en öll þessi mál eru að sjálfsögðu í skoðun.

Ég mun víkja síðar að þeim þáttum sem hv. þingmaður spurði mig sérstaklega um áðan og lúta að skólunum.