139. löggjafarþing — 15. fundur,  19. okt. 2010.

fjárhagsstaða sveitarfélaganna.

[16:21]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Kristjáni Þór Júlíussyni fyrir að vekja athygli á þessu því að það er mjög mikilvægt að við gerum okkur grein fyrir mikilvægi sveitarfélaganna í allri umsýslu á Íslandi og mikilvægi þess að ríki og sveitarfélög eigi mjög náið og gott samstarf. Í fyrri ræðu minni hér ætla ég að einbeita mér að því.

Það er mjög mikilvægt að samskipti milli ríkis og sveitarfélaga séu með formlegum hætti, séu í einhvers konar farvegi þar sem ekki þarf að efast um hvernig á málum verði tekið þegar þessir stóru leikendur í okkar þjóðlífi og okkar samfélagi þurfa að tala saman. Svo virðist sem undanfarin ár og reyndar enn í dag sé þetta frekar tilviljanakennt að menn komi saman og tali saman þegar á þarf að halda, þegar eitthvað kemur upp á.

Við þekkjum öll eða flest hér umræðuna um tekjustofna og tekjustofnanefnd. Ég held að slíkt sé búið að vera í gangi frá því hreinlega ég man eftir sveitarstjórnarmálum, að menn séu að ræða tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga og það er eflaust mjög gott að slík vinna sé stanslaust í gangi. Hins vegar verður ferillinn að vera formlegur. Þar er ég að vísa m.a. til þess að þegar ríkið tekur upp á því og við hér á Alþingi, herra forseti, að setja lög og framkvæmdarvaldið að setja reglugerðir sem eru íþyngjandi fyrir sveitarfélögin á vitanlega ekki að vera hægt að gera slíkt nema að viðhöfðu mjög viðamiklu og nánu samráði, þannig að það komi ekki sveitarstjórnarmönnum og íbúum sveitarfélaganna á óvart þegar slíkt er gert.

Því ber vissulega að fagna að nú hafi náðst samkomulag um hvaða fjármunir eigi að fylgja málefnum fatlaðra til sveitarfélaganna en ekki er síður mikilvægt að sveitarfélögin fái í raun tryggingu eða einhvers konar skjól fyrir lögum og reglum sem ríkið getur sett í kjölfarið, það er mjög mikilvægt. Að minnsta kosti þurfa að koma fyrirheit um (Forseti hringir.) hvernig staðið verði að breytingum á þeim lögum sem þarna eiga við og reglugerðum.