139. löggjafarþing — 15. fundur,  19. okt. 2010.

fjárhagsstaða sveitarfélaganna.

[16:29]
Horfa

Jórunn Einarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Menn fara hér mikinn. En ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Kristjáni Þór Júlíussyni fyrir að hefja umræðu um þetta mál. Ég get tekið undir það sem hér hefur komið fram. Ég held að það sé mjög mikilvægt að halda þessari umræðu á lofti í þinginu og ég hvet hv. þingmenn til þess að gera það reglulega í framtíðinni.

Ég óttast að umræðan geti hæglega snúist upp í andhverfu sína þar sem við förum að takast á um hlutverk og lögbundnar skyldur sveitarfélaga og ríkis og ég tel það ekki vænlega leið til árangurs. Við erum ein þjóð, við erum öll á sama báti og aðgerðir verða að miðast við það.

Eins og fram minnst var á í umræðunni hér á undan kom það fram á fundi nýkjörinnar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga og á fjármálaráðstefnu sveitarfélaganna í síðustu viku að auknar byrðar á sveitarfélögin verða mörgum sveitarfélögum um megn, og á því leikur enginn vafi. En þrátt fyrir mikinn bölmóð og umræður um fjárlagafrumvarpið og þau neikvæðu áhrif sem það mun jafnvel hafa í för með sér, ef það verður samþykkt óbreytt, langar mig svona í lokin að minna á að það er mikill undirliggjandi kraftur og baráttuandi víðs vegar um landið. Það er vilji til aukins samstarfs á milli landshluta og einnig á milli einstakra sveitarfélaga, það er vöxtur á ýmsum sviðum og sérstaklega í ferðaþjónustunni. Þess vegna er gríðarlega mikilvægt að efla samráð ríkis og sveitarfélaga enn frekar. Ég hvet því til þess að boðað verði sem allra fyrst til samráðsfundar þess sem gert er ráð fyrir í samstarfssáttmála ríkis og sveitarfélaga og undirritaður var 2. apríl 2008, en slíkur fundur var síðast haldinn í september 2009.