139. löggjafarþing — 15. fundur,  19. okt. 2010.

þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnaður.

24. mál
[16:55]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það frumvarp sem hv. þingmenn leggja fram er eitthvert mesta lýðskrum og popúlismi sem ég hef séð frá því að ég fór að fylgjast með störfum Alþingis. Það er með ólíkindum að hv. þingmenn skuli nota sér það ástand sem er í samfélaginu til að slá sig til riddara með hætti sem þessum. Ekki nóg með að þeir séu að setja sjálfa sig mjög langt niður, að mínu viti, heldur eru þeir einnig að gera mjög lítið úr því starfi sem fer fram á Alþingi. Þeir eru einnig að gera lítið úr störfum þeirra þingmanna sem gegna formennsku í nefndum á Alþingi. Það er með ólíkindum að þingmenn sjálfir skuli ekki hafa skilning á því út á hvað það starf gengur hér í þinginu. Það er mjög sérstakt. Mér þætti vænt um ef hv. þingmaður mundi þá vilja upplýsa okkur um hver hann telur að laun þingmanna og kjör eigi að vera. Hver eiga þau að vera að hans mati? Hvað er réttlátt kaup og kjör fyrir starf þingmanns?

Hann lýsti því ágætlega hér áðan sjálfur að þetta væri 24 tíma vinna sjö daga vikunnar. Fyrir þá sem eru nefndarformenn, eða taka að sér önnur trúnaðarstörf, er þetta enn meiri vinna. Hvað vill hv. þingmaður greiða fyrir slíkt? Ég held hann þurfi að svara þessu. Það getur vel verið, eins og hefur kannski komið fram einhvers staðar, að staða hans sé slík að hann líti á starf þingmanna sem eins konar þegnskylduvinnu. Það getur vel verið að það sé þannig. Það á hann bara að segja það hreint út.

Þetta er dæmi um lýðskrum og popúlisma af verstu sort.