139. löggjafarþing — 15. fundur,  19. okt. 2010.

þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnaður.

24. mál
[17:08]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Sú umræða sem hér er um Alþingi og störf alþingismanna finnst mér ekki gefa raunsanna mynd af þeim störfum sem hér fara fram. Þegar menn tala um virðingu þingsins, hvers vegna hún er svo lítil sem raun ber vitni, er það kannski vegna þess hvernig við tölum um þetta starf á þinginu.

Hv. þingmenn Samfylkingarinnar hafa talað um að hér séu menn að „víla og díla“ í bakherbergjum, að nefndarformenn hafi miklu meira um hlutina að segja og þar fram eftir götunum, að starfið hér einkennist af einhverju baktjaldamakki. Ég er í stjórnarandstöðu og er þar af leiðandi ekki formaður í neinni nefnd. Ég er ekki í forsætisnefnd en ég skil ekki hvernig hv. þingmenn geta sagt að það að vera forseti eða varaforseti þingsins sé eitthvað miklu virðulegra og mikilvægara en að stýra stórum nefndum eins og sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd, fjárlaganefnd eða efnahags- og skattanefnd, og gera þannig upp á milli þeirra starfa sem við vinnum hér.

Hv. þingmenn Samfylkingarinnar sem lögðu þetta mál fram hafa ekki komið með sannfærandi rök fyrir því hvers vegna slá eigi aukagreiðslu sumra embætta í þinginu af en annarra ekki, vegna þess að það að vera varaforseti þingsins er svo svakalega virðingarvert. Ég velti því fyrir mér þegar hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir segir í hinu orðinu að ráðherrar eigi ekki að sitja á þingi og hv. þm. Mörður Árnason nefnir það svo að menn eigi að spara og að þetta frumvarp sé gert til þess, að þá auki menn útgjöld ríkissjóðs með því að taka ráðherra af þingi. Við verðum að vera samkvæm sjálfum okkur í þessari umræðu.

Ég fer fram á að við tölum um þetta starf, sem á að vera eitt það virðingarverðasta í íslensku samfélagi, þannig að fólk geti borið virðingu fyrir Alþingi Íslendinga.