139. löggjafarþing — 15. fundur,  19. okt. 2010.

þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnaður.

24. mál
[17:12]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Það kom fram í rökstuðningi hv. þingmanna að vegna þess hversu gríðarlega mikil virðingarstaða það væri að sitja á þingforsetastóli og þar með væru þeir aðilar sem þar sætu mun virðulegri en aðrir alþingismenn, ættu þeir að vera á hærri launum en aðrir. Það væri líka gríðarleg viðvera fyrir varaforseta þingsins að sitja þingfundi. Ég fullyrði að það er mun meira vinnuálag á nefndarformönnum Alþingis. Þeir þurfa að vera í sambandi við ráðuneytin og alls konar hagsmunasamtök í samfélaginu. Þeir þurfa líka að semja við stjórnarandstöðuna um mörg mál. Það er gríðarlegt vinnuálag. Ég var formaður í þingmannanefndum í ein þrjú ár og tel mig vita nokkuð um hversu gríðarlega mikið vinnuálag fylgir því.

Í öðru lagi vil ég nefna það, af því hv. þingmenn tala um ráðherra sem hér sitja, hvort við ættum þá ekki að halda áfram: Eiga þeir þá ekki að vera á nákvæmlega sömu launum? Ég er ekki stuðningsmaður þess en ráðherrar eru með fullt af starfsmönnum. Þeir eru með bílstjóra, aðstoðarmenn, ritara og með miklu meiri þjónustu en almennir þingmenn.

Ég spyr enn og aftur: Fyrst hv. þingmenn leggja þetta fram — ég tek það fram að ég er ekki sammála þessu frumvarpi — hvers vegna í ósköpunum ætla þeir þá að gera upp á milli þingmanna hér, þ.e. þeirra sem sitja á stóli forseta og annarra þingmanna? Og ef það á að vera einhver mesta valdastaða þingsins að vera einn af varaforsetum þingsins þá er það einfaldlega ekki svo.

Ég kem hér upp í fullri vinsemd og ég vona að þetta mál fái málefnalega umfjöllun í nefnd, en ég tek það fram að ég er ekki stuðningsmaður þess sem hér er lagt til því að ég veit hversu gríðarlegt vinnuálag er á fólki sem er í forustu fyrir nefndir þingsins. Við þurfum líka að gæta orða okkar hér, hvernig við tölum um það starf sem við gegnum, því að annars mun virðing Alþingis (Forseti hringir.) ekki aukast á næstunni.