139. löggjafarþing — 15. fundur,  19. okt. 2010.

þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnaður.

24. mál
[17:21]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er í grunninn sammála Merði Árnasyni um að laun eigi ekki að vera meginástæða þess að menn sækist eftir þingmennsku. Launin eiga að vera hæfilega há og peningar eiga ekki að laða menn á þing. Það eiga að vera hugsjónir og vilji til að vinna fyrir samfélagið.

Þetta frumvarp hefur eflaust sína galla ásamt kostunum, en það er alla vega skemmtilegt. Þetta er ágætisvettvangur til að ræða almennt um kjör og laun manna í landinu.

Það fylgja því örugglega áhrif að vera formaður þingflokks. Ég verð að segja fyrir mig að ég vil að menn sækist eftir því vegna þeirra áhrifa en ekki vegna þess að þeir fái örlitla launauppbót.

Það sem rak mig sérstaklega hingað upp var þetta sífellda jarm um virðingu Alþingis. Virðing — við verðum að standa undir virðingunni — virðingin og virðingin. Ég horfi oft á alþingisrásina í sjónvarpinu og þar er þetta sífellda tal um virðingu okkar, þetta háa Alþingi. Ég vil að alþingismenn fari að tala um hið lága Alþingi og þá ekki í þeirri merkingu að hér fari fram einhver lágkúra heldur sé þingið á sama plani og þjóðfélagið almennt.

Mér finnst þetta dálítið skemmtilegt frumvarp. Hvort sem það verður samþykkt eða ekki er umræðan mjög þörf.