139. löggjafarþing — 15. fundur,  19. okt. 2010.

þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnaður.

24. mál
[17:39]
Horfa

Þráinn Bertelsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef svo sem ekkert frekar um það að segja sem hv. þingmaður Ólína Þorvarðardóttir hefur fram að færa sem sína skoðun á þessu máli. Það er grundvallarágreiningur milli mín og hv. þingmanns um það að annars vegar virðist hún skilja jöfnuð sem að allir fái nákvæmlega það sama. (ÓÞ: Nei.) Þú varst að segja það. (ÓÞ: Ég …) Jöfnuður í mínum huga er allt annar hlutur en að allir eigi að vera nákvæmlega jafnir. Ég held að allir þingmenn eigi að vera nákvæmlega jafnir. Ég held það. Ég held ekki að þingmenn eigi að hafa sama kaup og skurðlæknar, flugmenn, bændur eða hvað sem er. Ég held að allir þingmenn eigi að fá sama kaup fyrir þá vinnu sem þeir inna af hendi. Svo einfalt er það.

Ég hef heldur ekkert að athuga við þá skoðun að aukna ábyrgð eigi að meta til fjár. Ég hafna því að meta alla skapaða hluti til fjár. Ég fyrir mitt leyti sækist eftir aukinni ábyrgð hér á þingi, ég sækist eftir auknum áhrifum og með því að koma einhverju góðu til leiðar fæ ég mína greiðslu. Ég þarf ekki þessi 15%. Við skulum ekki meta allt til fjár.