139. löggjafarþing — 15. fundur,  19. okt. 2010.

millilandaflug um Ísafjarðarflugvöll.

28. mál
[18:05]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Eins og fram kom í máli hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar þá eru aðrir þingmenn kjördæmisins meðflutningsmenn að tillögunni. Þingmaðurinn fór allítarlega yfir forsendur tillögunnar sem hér liggur fyrir en ég kem fyrst og fremst upp til að vekja athygli á því sem starfandi formaður Vestnorræna ráðsins að þingsályktunartillagan er í góðu samhengi við stefnumörkun og áherslur sem lagðar hafa verið fram í Vestnorræna ráðinu um samskipti milli vestnorrænu landanna og þá ekki síst milli Íslands og Grænlands. Ef unnt verður að koma á millilandaflugi frá Ísafjarðarflugvelli mundi það stórauka bæði vöruflutninga og þjónustu milli Vestfjarða, eða Íslands, og austurstrandar Grænlands. Það mundi hafa mikla þýðingu fyrir byggðarlögin á austurströnd Grænlands og ekkert síður fyrir vöru og þjónustuveitendur á Vestfjörðum.

Ef kominn væri millilandaflugvöllur væri það einnig lyftistöng fyrir Vestfirðinga. Við sjáum fyrir okkur að hægt væri að fljúga milli fleiri landa en Íslands og Grænlands þannig að það er margt gott í þessu. Ég vil líka minna á það sem kemur fram í greinargerðinni að meira en 50 þúsund farþegar fara í innanlandsflugi um Ísafjarðarflugvöll á hverju ári. Það má líka minna á að millilandaflug var leyfilegt frá Ísafjarðarflugvelli á árum áður þannig að flugvöllurinn er ekkert illa til þess fallinn að sinna millilandaflugi. Það hefur hins vegar lagst af í seinni tíð m.a. vegna ákvæða í Schengen-samkomulaginu.

Það er ýmislegt sem mælir með því að farið verði í þetta. Ég mundi fagna því ef þingsályktunartillagan næði fram að ganga. Með henni fengist bæði bætt og aukin samskipti við næstu nágranna okkar á austurströnd Grænlands og aukin þjónusta við Vestfirðinga. Eins og bent er á í greinargerðinni mundi þetta renna stoðum undir ferðaþjónustu á Vestfjörðum, sem er vaxandi atvinnugrein, og hún mundi vafalítið njóta góðs af því.