139. löggjafarþing — 15. fundur,  19. okt. 2010.

millilandaflug um Ísafjarðarflugvöll.

28. mál
[18:08]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég kem hingað fyrst og fremst til að ítreka mikilvægi málsins og stuðning hv. þm. Guðmundar Steingrímssonar og minn við þingsályktunina.

Það er hægt að velta vöngum yfir tækifærum sem í þessu felast en hv. 1. flutningsmaður, Einar K. Guðfinnsson, fór ágætlega yfir það. Ég vil þó draga fram hversu mikilvægur Ísafjarðarflugvöllur er fyrir þennan landshluta og hvaða tækifæri felast í millilandaflugi við Grænland og hvert sem er, þegar og ef af þessu verður. Ég vil frekar nota orðið „þegar“ af þessu verður. Vestfirðir eru fyrir margra hluta mjög einstakt svæði. Það hlýtur að skapast tækifæri til að fljúga þangað beint með hópa. Ég þekki ekki hversu stórar flugvélar geta lent á vellinum en maður sér tækifæri í því ef slíkt gerist.

Svo er annað sem maður sér tækifæri í. Það eru aukin viðskipti við Grænland og fyrirtæki sem eru og munu starfa þar. Mér dettur í hug olíurannsóknirnar þar og væntanleg olíuvinnsla. Þar eru málmar í jörðu og ýmislegt þess háttar. Það má hæglega reikna með að við getum náð í viðskiptaþjónustu til Grænlands í gegnum flugvöll, þ.e. ef hann hefur leyfi og er til þess búinn að sinna millilandaflugi.

Annað sem ég nefni er að það má hugsanlega, í ljósi allrar umræðu sem hér hefur orðið um heilbrigðisstofnanir, finna ný tækifæri fyrir sjúkrahúsið og heilbrigðisstofnunina á Ísafirði sem er ágætlega tækjum búið til að þjónusta Grænlendinga betur en þegar er gert. Opna fyrir tækifæri sem hafa ekki áður verið nýtt. Það gæti þýtt að við þurfum að horfa til frekari uppbyggingar á heilbrigðisstofnunum sem væri öllum til góða.

Á svæðinu opnast tækifæri fyrir útflutning og þjónustu. Að sjálfsögðu fer það eftir því hversu stórar flugvélarnar eru og hversu hagkvæmt verður að flytja um völlinn. Fyrst og fremst held ég að tillagan þurfi að fá umfjöllun sem fyrst. Það felast í þessu tækifæri. Okkur veitir ekkert af því að nýta þau mannvirki sem fyrirfinnast á landsbyggðinni ef við getum með litlum kostnaði gert þau enn betri.