139. löggjafarþing — 16. fundur,  20. okt. 2010.

störf þingsins.

[14:11]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Eins og fram kom í máli hv. þm. Marðar Árnasonar fór fram umræða um þetta mál í gær og áður höfðum við rætt það á vettvangi utanríkismálanefndar. Í þeim umræðum sem fóru fram á vettvangi nefndarinnar hygg ég að mér sé óhætt að segja að allir nefndarmenn hafi tekið undir þá yfirlýsingu sem hafði komið um þetta mál frá hæstv. utanríkisráðherra.

Við ræddum auðvitað líka ákveðin prinsipp í þessu, svo sem hvenær Alþingi eða utanríkismálanefnd ætti að senda frá sér yfirlýsingar eða ályktanir í tilefni af málum af þessum toga og hvenær ekki, hvenær það væri við hæfi, undir hvaða formerkjum og með hvaða hætti.

Ég vil bara segja að það er rétt hjá hv. þingmanni að það hefur komið upp áhugi hjá utanríkismálanefnd á að skoða það að flytja tillögu af þessum toga þannig að ég mun reyna að gera ráðstafanir til að nefndin geti hist jafnvel strax í dag til sérstaks fundar og ræða það þá, ef við fáum leyfi virðulegs forseta til að funda þó að þingfundur standi, og skoða það þá og fá niðurstöðu um það á vettvangi nefndarinnar hvort hún vill taka að sér að flytja það eða hvort hv. fyrrverandi væntanlegir flutningsmenn verða kannski flutningsmenn eftir allt saman. Það kemur í ljós á vettvangi nefndarinnar hvort það verður. Ég tek undir með hv. þingmanni um að hér er um mikilvægt mannréttindamál að ræða sem er skylt af okkar hálfu að halda vel til haga.