139. löggjafarþing — 16. fundur,  20. okt. 2010.

störf þingsins.

[14:13]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég vek athygli á því að nú er áætlað að skila fjárlögum fyrir næstkomandi ár með 37 milljarða kr. halla að því gefnu að allar forsendur gangi upp sem því miður eru allar líkur á að þær geri ekki. Ég vek athygli á þessu vegna þess að ég heyri að sumir hæstv. ráðherrar fara um víðan völl og lofa því að þetta sé síðasta árið sem verður einhver niðurskurður. Það er þá augljóslega ekki rétt.

Ég vil í leiðinni vekja athygli á máli sem fór ekki hátt en það var þegar Ríkisendurskoðun setti ofan í við hæstv. heilbrigðisráðherra vegna þess að hæstv. heilbrigðisráðherra flutti frumvarp fyrir yfirstandandi ár sem gerði ráð fyrir 30% lækkun á sjúkratryggingum. Það gekk ekki eftir og Ríkisendurskoðun benti hæstv. ráðherra og hæstv. ríkisstjórn á að þeir bæru ábyrgð á fjárlögum, bæði framlagningunni og að koma þeim í framkvæmd. Það er augljóst að þarna var um að ræða ónógan undirbúning og hæstv. ráðherrar tóku ekki ábyrgð á því sem þeir áttu að bera ábyrgð á. Því fór sem fór.

Ég vek athygli á þessu núna, virðulegi forseti, því að mér sýnist þetta vera almenna reglan í öllu fjárlagafrumvarpinu og sérstaklega því sem snýr að heilbrigðismálum. Þar er ekki búið að leggja grunninn að undirbúningi og það er ekki búið að tala við neitt af því fólki sem á að koma að framkvæmdinni, hvorki því sem er að taka við þjónustu eða sem missir þjónustu. Ég hef af því miklar áhyggjur og vildi þess vegna ræða það hér, virðulegi forseti, að við horfum fram á að sú athugasemd sem þarna kom fram út af þessu ákveðna máli muni eiga við nokkurn veginn stærsta bálkinn af fjárlagafrumvarpinu (Forseti hringir.) á þessum erfiðu tímum. Nú er þess vegna mikilvægt, virðulegi forseti, að ábyrgir aðilar setjist niður og meti það hvernig (Forseti hringir.) við vinnum úr þeirri erfiðu stöðu sem komin er upp.

(Forseti (ÞBack): Ég minni hv. þingmenn á ræðutíma.)