139. löggjafarþing — 16. fundur,  20. okt. 2010.

störf þingsins.

[14:18]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Mig langar aðeins að blanda mér í umræðu þá er hv. þm. Skúli Helgason vakti upp í sambandi við skýrslu Ríkisendurskoðunar varðandi tvo framhaldsskóla, Menntaskólann Hraðbraut og Keili. Mér þykir mjög leitt ef formaður menntamálanefndar hefur svo lítinn skilning og litla þekkingu á því sem er að gerast í Keili á Ásbrú. Hann heldur því reyndar fram að það hafi ekki verið um „sambærilega misnotkun á almannafé að ræða“ samkvæmt skýrslu Ríkisendurskoðunar. Ég mótmæli þessu harðlega vegna þess að þarna er þingmaðurinn að vísa til þess að um misnotkun á almannafé hafi verið að ræða hjá menntastofnuninni Keili sem ég mótmæli.

Eins og menn ættu að þekkja sem hafa fylgst með þessu máli frá upphafi duldist engum hver stefnan var í upphafi með Keili. Það hefur verið samþykkt af ráðuneyti, ráðherrum og verið upplýst um það allan þann feril að upphaflega ætti að þróa þarna ýmsar námsbrautir. Það var lagt af stað í upphafi með Háskólabrú vegna þess að hún var tilbúin til samþykktar. Samhliða því voru þróaðar fleiri námsbrautir sem tekið hafa til starfa. Það fé frá opinberum aðilum sem um ræðir hefur verið nýtt til að þróa þær námsbrautir í fullu samráði við bæði ráðuneytið og aðra sem þarna að koma þannig að ekki er með nokkru móti hægt að segja að um misnotkun á almannafé sé að ræða. Ég hvet hv. þm. Skúla Helgason til að kalla forsvarsmenn skólans til sín til þess að fá útskýringar á þessu vegna þess að þarna er einfaldlega ranglega farið með.