139. löggjafarþing — 16. fundur,  20. okt. 2010.

störf þingsins.

[14:25]
Horfa

Birgir Þórarinsson (F):

Frú forseti. Ég vil koma Keili til varnar og þakka hv. þm. Ragnheiði Elínu fyrir að vekja máls á því. Eins og hún nefndi hefur hv. þm. Skúli Helgason greinilega litla þekkingu á því góða starfi sem þar fer fram. Höfum það í huga, og ég hef talað um það hér, að atvinnuleysi á Suðurnesjum er mjög mikið og að þetta er gríðarlega mikilvægur þáttur í því að vinna á ástandinu þar. Það hefur ríkt þverpólitísk sátt um Keili. Þarna fer fram ómetanlegt starf, (Gripið fram í.) þarna er svokölluð Háskólabrú sem gefur fólki tækifæri sem einhverra hluta vegna hefur hrökklast úr námi til að snúa sér að háskólanámi á ný. Hvað er mikilvægara akkúrat í þessu ástandi sem nú ríkir í þjóðfélaginu en að fá slíkt tækifæri? Ég get ekki séð að það sé brot á þjónustusamningi að byggja nýjar námsbrautir og gefa fólki ný tækifæri.

Ég held að hv. þm. Skúli Helgason ætti frekar að beita sér fyrir því að hækka framlag ríkisins til Keilis. Það er núna 200 þús. kr. á nemanda, lægsta framlag í öllum framhaldsskólum á landinu á meðan aðrir framhaldsskólar fá 600–700 þús. kr. Það væri vel við hæfi að hann beitti sér fyrir því að hækka þetta framlag.