139. löggjafarþing — 16. fundur,  20. okt. 2010.

störf þingsins.

[14:27]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Vegna orða hv. þm. Bjarna Benediktssonar áðan er ástæða til að fagna þeim góðu undirtektum sem verið hafa hjá þingmönnum Sjálfstæðisflokksins í dag við boðuðu frumvarpi ríkisstjórnarinnar um að stytta fyrningu krafna eftir gjaldþrotaskipti. Það er rétt að árétta að það er ætlunin að stytta hana í tvö ár. Það nær þó ekki til skaðabótakrafna eða annarra krafna sem stafa af ámælisverðri háttsemi skuldarans en skal vera þröngt túlkað og lánardrottnar þurfa að sækja lengda fyrningu þess vegna fyrir dómstóli og það skulu vera líkur fyrir því að þar fáist krafan endurheimt.

Ég held að hér sé á ferðinni gríðarlega mikilvægt mál, ekki síst í þeim aðstæðum sem við erum í í dag, en líka einfaldlega breyting í átt til nútímans því að við höfum gengið allt of hart fram gagnvart fólki sem hefur gengið þá píslargöngu að verða gjaldþrota. Við höfum elt það allt of lengi og látið það sæta allt of hörðum refsingum og gefið því allt of lítil tækifæri til að rísa aftur á fætur. Það vita allir sem einhverja reynslu hafa af gjaldþrotaskiptum að kröfuhafar ná ekki neinu af fólki tveimur árum eftir að það varð gjaldþrota þannig að hinn fjárhagslegi tilgangur með því að elta fólk lengur er ákaflega vafasamur og mörgu fólki hefur verið ýtt út í hið svarta hagkerfi til þess að lifa hálfpartinn til hliðar við samfélagið vegna þeirra skilyrða sem því hafa verið sköpuð svona.

Um leið tek ég undir það með formanni Sjálfstæðisflokksins að það er auðvitað mikilvægt að skoða önnur úrræði í ljósi þessa, m.a. greiðsluaðlögunina, og auðvitað mega skilaboðin frá þinginu eða ríkisstjórninni aldrei vera að þetta sé eitthvert úrræði í skuldavanda heimilanna. Það getur aldrei orðið úrræði að verða gjaldþrota. Það að fara í gegnum gjaldþrot verður alltaf hræðileg reynsla og mun alla tíð fylgja þeim sem í gegnum það fer. Þó að þetta sé mikið fagnaðarefni (Forseti hringir.) verðum við auðvitað að fá sterkar almennar alvöruaðgerðir fyrir allan þorra fólks í landinu (Gripið fram í: Heyr, heyr.) (Forseti hringir.) þó að það sé ástæða til að fagna því að hér sé þeim sem gjaldþrota verða hlíft meira en áður hefur verið.